Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lofar fyrstu ferð nýja WOW innan fárra vikna

08.01.2020 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv / Wiki Commons - Samsett mynd
Michele Edwards, stjórnarformaður US Aerospace Associates sem hyggst endurreisa flugfélagið WOW air, segir að fyrsta flug nýja flugfélagsins verði innan fárra vikna. 

Upphaflega átti fyrsta vél félagsins að taka á loft frá Keflavíkurflugvelli í október en ferlið við endurreisnina var sagt ganga hægar en vonast hafði verið til. Greint var frá því í lok desember að nýja félagið hefði tekið húsnæði á leigu í miðborg Washington og lengi hefur verið talað um að það styttist í fyrsta flugið. 

Edwards birti tilkynningu á LinkedIn-síðu sinni í dag þar sem hún fer yfir stöðu mála. Hún segir þar, enn sem áður, að félagið vilji leggja áherslu á léttleika í flugi og það sé spennandi að tilkynna áætlanir um það á næstunni.

„WOW air fer í loftið á ný innan fárra vikna,“ skrifar hún.