Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Loðnuvon dvín - örlög vertíðar ráðast í febrúarmælingu

24.01.2020 - 12:43
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Leiðangursstjóri HAFRÓ er svartsýnn á að loðna finnist á síðasta degi leigangurs þriggja leitarskipa. Hingað til hefur lítið sést. Helsta vonin er að loðnan sé sent á ferðinni og febrúarmæling verði betri. Mikið er í húfi. Loðnuvertíðir hafa skilað um 18 milljörðum króna í þjóðarbúið en engin loðna var veidd á síðustu vertíð.

Þrjú loðnuleitarskip með Árna Friðriksson, rannsóknarskip HAFRÓ, í fararbroddi héldu í morgun út á Vestfjarðamið að ljúka mælingaleiðangri sem hófst um miðjan mánuðinn. Við náðum tali af Birki Bárðarsyni leiðangursstjóra á útleið. Þá voru þeir að bíða þess að lægði til að þeir gætu komið sér á snið sem kallað er, byrjað að sigla eftir fyrir fram ákveðinni leitarlínu.

Vona að loðnan gangi í byrjun febrúar

„Við erum að vonast til þess að ná að klára svæði í þessum veðurglugga sem er núna. Við erum ekkert búnir að sjá mikið magn. Maður veit aldrei með þessa loðnu. Maður verður bara að sjá hvað komur í ljós núna í lok dags. Menn eru nú ekkert sérstaklega bjartsýnir. Svo förum við aftur í byrjun febrúar og þá tökum við aðra heildaryfirferð og vonumst til að ná góðri mælingu á stofninum. Þá vona menn bara að eitthvað meira hafi borist inn á svæðið,“ segir Birkir.

Hafís truflar nyrst á leitarsvæðinu

Samkvæmt aflareglu á að skilja 150 þúsund tonn af kynþroska loðnu eftir til hrygningar. Mæla þarf meira en 150 þúsund tonn með 95% vissu og það sem mælist umfram kemur til greina sem kvóti. Auk Árna Friðrikssonar leita Polar Amaroq, skip Síldarvinnslunnar, og Hákon EA. Fyrr í mælingunni voru Bjarni Ólafsson og Ásgrímur Halldórsson líka með, þegar leitað var úti fyrir Austfjörðum. Birkir segir að loðna hafi helst sést norður af Húnaflóa. Einnig sást til hennar á Vestfjarðamiðum en aðstæður til leitar þar mættu vera betri. „Í þessum vindáttum er búinn vera að berast hafís inn á Grænlandssundið og inn á mælingarsvæðið hjá okkur. Það er hætt við því að við komumst ekki langt norður út af hafís en við munum bara láta á það reyna hvað við komumst langt,“ segir Birkir.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV