Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Loðnustofninn langt undir mörkum aflareglu

03.02.2020 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkvæmt bráðabirgðamati, eftir mælingar á loðnustofninum í janúar, vantar mikið upp á að hægt verði að mæla með loðnuveiðum. Loðnuleit hófst á ný um helgina.

Stærð hrygningarstofnsins, í leiðangri þriggja skipa á tímabilinu 13. til 25. janúar, mældist aðeins um 64 þúsund tonn. Það er langt undir mörkum í gildandi aflareglu sem þarf að ná svo Hafrannsóknastofnun geti ráðlagt veiðar.

Loðnuleit hafin á ný

Á laugardag hófst loðnuleit á ný þegar uppsjávarskipið Polar Amaroq hélt til mælinga suðaustur af landinu. Á morgun kemur Aðalsteinn Jónsson SU inn í þær mælingar fyrir austan land, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar. Á sama tíma heldur rannsóknarskipið Árni Friðriksson vestur fyrir land, til móts við hin skipin. Gert er ráð fyrir að þessi leiðangur skipanna standi yfir að minnst kosti fram í miðjan mánuð.