Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loðnubrestur: „Meðan það er ennþá möguleiki bíðum við“

Mynd: RÚV / RÚV
Skipstjóri sem tók þátt í loðnumælingum suður af Papey, út fyrir minni Hamarsfjarðar, um helgina er vongóður um vertíð. Þar fundust vænar torfur sem Hafrannsóknarstofnun leggur mat á.

„Þetta er torfa sem við sigldum yfir í gærkvöldi á leið í land. Það hefði verið hægt að veiða duglega þarna í gær,“ segir Sigurður Grétar Guðmundsson, skipstjóri. Honum finnst góð tilfinning að finna loðnutorfur eftir langa bið. „Maður spennist allur upp og er vongóður að það komi vertíð. Það er enn þá tími.“

Leiðangursstjóri Hafrannsóknastofnunar sagði í hádegisfréttum að magn loðnunnar þyrfti að vera talsvert til þess að það skipti máli. Sérfræðingar stofnunarinnar leggja nú mat á það. Fyrir helgi tilkynnti stofnunin að hrygningarloðna væri vel undir síðustu mælingu og litlar líkur á að það breyttist verulega.

„Ef við erum að horfa á annað árið í röð með aflabrest í loðnu, þá fer þetta að bíta mjög illa á okkar helstu mörkuðum,“ segir Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Hvað gerið þið ef engin loðna finnst? „Þegar stórt er spurt þá er litið um svör. Þá snúum við okkur að kolmunna. Það er næsta verkefni,“ segir Gunnþór jafnframt. Það eru ekki jafn mikil verðmæti í honum og loðnu.

Síldarvinnslan er í daglegum samskiptum við erlenda viðskiptavini sem bíða fregna af loðnunni. Í Fjarðabyggð bíða á þriðja hundrað manns eftir loðnuvertíð. „Meðan það er enn þá möguleiki þá bíðum við. Auðvitað vilja menn fara að vinna, menn vilja að hafa eitthvað að gera. Ef menn hafa ekkert að gera í þrjá fjóra mánuði verða menn óþolinmóðir.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV