Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Loðnubrestur kostar ríkið 4-5 milljarða króna

13.03.2019 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Ætla má að ríkissjóður verði af fjórum til fimm milljörðum króna nú þegar ljóst er að engar loðnuveiðar verða á þessari vertíð. Talsmaður sjávarútvegsfyrirtækja segir þetta þungt högg fyrir sjávarútveginn og fjölda byggðarlaga. Þá sé kolmunnavertíðin í uppnámi þar sem ósamið sé um aðgang að færeyskri lögsögu.

Í gær var tekin ákvörðun um að hætta allri formlegri leit að loðnu á þessari vertíð. Það þýðir að Hafrannsóknastofnun leggur að óbreyttu ekki til að gefinn verði út loðnukvóti. Ljóst er að þetta hefur mikil áhrif víða um land. Ríkissjóður verður af miklum tekjum, sem og sveitarfélög sem treysta á loðnuvertíð.

Skip sett á sölu og fólki sagt upp hjá fyrirtækjum

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir fyrirtæki þegar farin að bregðast við loðnubrestinum. „Það má áætla að ríkissjóður sé að verða af einhverjum fjórum, fimm milljörðum í tekjur. Nú, við erum strax farin að sjá að það er verið að setja skip á sölu, það er verið að segja upp fólki hjá þjónustufyrirtækjum sem hafa þjónustað fyrirtækin og annað.“

Ósamið við Færeyjar og kolmunnaveiðin í uppnámi

Jens segir að að öllu jöfnu ættu útgerðirnar á þessum tíma að geta snúið sér að kolmunnaveiðum af krafti. En þar sem ósamið sé við Færeyinga um aðgang að færeyskri lögsögu gengi það ekki eftir. „Sem þýðir það að flotinn hefur verið að berjast einhverjar 800 mílur frá landi, niður við Bretlandsstrendur til að reyna að ná kolmunnanum. Við erum ekki búnir að ná helmingnum af kvótanum og nú er sá tími að verða liðinn. Menn geta verið að veiða til 20. mars í alþjóða sjó, þá er kolmunninn farinn inn í breska lögsögu. Þannig að það er enn eitt höggið.“

Uppsjávarfrystihúsin verkefnalaus í 7-8 mánuði   

Og á þessarri stundu sé erfitt að segja nákvæmlega til um hvernig fyrirtækin bregðist við. Hver og einn meti nú sína stöðu og hvað hægt sé að gera. Uppsjávarfrystihúsin hafi verið verkefnalaus síðan síldarvertíð lauk í nóvemberlok og þar hefjist ekki vinnsla á ný fyrr en í byrjun júlí. „Þetta eru sem betur fer öflug og sterk fyrirtæki, þannig að ég veit að þau munu komast í gegnum þennan öldudal. En þetta mun taka virkilega í, þetta ástand,“ segir Jens Garðar.