
Loðfílatönn fannst við uppgröft á miðaldabæ
Loðfílar örkuðu um Bæjaraland þar til fyrir um 20 þúsund árum. Leifar þeirra finnast þó sjaldan í sambandsríkinu, hvað þá jafn heillegar og skögultönnin. Hún er um tveir og hálfur metri á lengd. Að sögn Deutsche Welle verður tönnin nú send til frekari rannsókna, en sérfræðingar telja hana hafa tilheyrt fullorðnum tarfi. Annað bein fannst nærri skögultönninni, en ekki er víst úr hvaða dýri það er.
DW hefur eftir fornleifafræðingnum Christoph Steinmann að bæði beinið og skögultönnin hafi legið lengi ofan í vatni. Það skýri hvers vegna ytra byrði þeirra er enn heilt, þó þau séu byrjuð að morkna að innan.
Við uppgröftinn fundust einnig leifar úr bænum sem leitað var að í upphafi. Til að mynda fannst brunnur, sorp-leifar, ofn og brot úr leirtaui frá miðöldum.