Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Loðdýrabændur vilja aðstoð frá ríkinu

18.10.2018 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Engar ákvarðanir hafa verið teknar um mögulegan stuðning ríkisins við loðdýrabændur í þeim erfiðleikum sem greinin býr við núna. Landbúnaðarráðherra væntir þess hins vegar að ákvörðun liggi fyrir á næstu vikum en segist engar fjárheimildir hafa til að bregðast við stöðunni. 

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins ræddi loðdýrarækt við Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra á Alþingi í dag. Gunnar Bragi vakti athygli á því að minkabændur hefðu leitað til ríkisstjórnarinnar eftir aðstoð við að komast úr úr tímabundnum erfiðleikum sem greinin glími við núna vegna offramleiðslu á heimsvísu og lækkandi verðs. Gunnar Bragi vakti athygli á því að þegar best gekk hafi minkarækt skilað meira en tveimur milljörðum í útflutningstekjur. 

„Á næstu tveim til þrem vikum á pelsun að hefjast og það er þegar högnar og læður eru settar saman munu því minkabændur þurfa að taka ákvörðun um sinn rekstur áður en það hefst ég spyr því hæstvirtan ráðherra hafa verið teknar ákvarðanir um aðstoð við greinina í þessum tímabundnu erfiðleikum,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson.

Landbúnaðarráðherra sagðist vita að þessi staða hvíli þungt á loðdýrabændum enda hafi greinin glímt við erfiðleika í nokkur ár. Vandinn sé hins vegar að verðið sem fæst fyrir vöruna stendur ekki undir framleiðslukostnaði. Hann hafi fundað með loðdýrabændum ásamt byggðamálaráðherra og rætt um aðgerðir.

„Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um þetta ennþá ég hef engar fjárheimildir undir mínum málaflokki til að bregðast við og því hef ég gert loðdýrabændum fullkomlega grein fyrir ef að um það er að ræða en ég vænti þess að við munum taka einhverjar ákvarðanir á næstu vikum ég get ekki tímasett það,“ sagði Kristján Þór Júlíusson.

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV