Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lóan er komin

27.03.2017 - 11:09
Mynd með færslu
Lóan kom til landsins í gær Mynd: Elma - Wikimedia Commons
Fjórar heiðlóur sáust á flugi við Einarslund á Höfn í morgun. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands. Óvenjumargar lóur ákváðu að vera um kyrrt á Íslandi nú í vetur, í stað þess að fljúga til Bretlandseyja eins og venja er.

Lóan er einum degi seinna á ferðinni í ár en í fyrra, þegar hún sást við Garðskagavita 26. mars. Meðalkomutími þessa ljúfa vorboða undanfarna tvo áratugi er 23. mars.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, bendir á að afar sjaldgæft sé að svo margar lóur hafi hér vetursetu eins og nú í vetur, en í desember sáust yfir 100 lóur á Seltjarnarnesi og nokkrir tugir um og eftir áramót. Það séu þó allar líkur á því að fuglarnir sem sáust við Einarslund séu farfuglar, að sögn Kristins.

 

Lóan er mjög algengur fugl á Íslandi og telur hátt í milljón fugla að hausti. Hún er hvergi eins algeng í Evrópu og hér – og eins og þekkt er þá er lóan okkar helsti vorboði. 

„Hún er að koma svona fram undir apríl, þannig að menn geta svo sem hengt sína vorkomu á hvað sem þeir vilja, en lóan er náttúrulega ágætur fulltrúi, syngur fallega og er ljúfur fugl. Þannig að það er ágætt að halda í þessa hefð og telja að vorið sé komið með lóunni,“ segir Kristinn.

Uppfært kl. 13.10

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV