Ljóst hverjir verða formenn nefnda

06.06.2013 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Vigdís Hauksdóttir verður formaður fjárlaganefndar og Guðlaugur Þór Þórðarson varaformaður. Stjórnarandstaðan fær formennsku í tveimur nefndum, Ögmundur Jónasson verður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir verður formaður velferðarnefndar.

Á þingflokksfundi Framsóknarflokksins í morgun var Sigrún Magnúsdóttir kosin formaður þingflokksins. Vigdís Hauksdóttir verður formaður fjárlaganefndar, Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og visðikiptanefndar og Höskuldur Þórhallsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Þá verður Silja Dögg Gunnarsdóttir annar varaforseti þingsins.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir er formaður þingflokks Sjálfstæðismanna og eins og áður hefur komið fram verður Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis. Kristján L. Möller verður fyrsti varaforseti.  Unnur Brá Konráðsdóttir verður formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Jón Gunnarsson verður formaður atvinnuveganefndar, Birgir Ármannsson formaður utanríkismálanefndar og Guðlaugur Þór Þórðarson varaformaður fjárlaganefndar.

Stjórnarandstaðan fær formennsku í tveimur nefndum. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir verður formaður velferðarnefndar og Ögmundur Jónasson verður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Katrín Júlíusdóttir verður fyrsti varaformaður umhverfisnefndar og Oddný Harðardóttir annar varaformaður fjárlaganefndar. Lilja Rafney Magnúsdóttir verður fyrsti varaformaður atvinnuveganefndar.

Alþingi sett í dag
Alþingi verður sett eftir hádegi í dag og hefst athöfnin klukkan 13:30. Bein útsending verður á Rás eitt frá klukkan 13:20 og í sjónvarpinu frá klukkan 14:00. Þingsetningarathöfnin hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni þar sem frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, predikar og séra Hjálmar Jónsson þjónar fyrir altari. Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup, starfandi forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghúss þar sem forseti Íslands setur Alþingi.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi