Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ljóst að það þarf að skoða fleiri valkosti“

03.10.2018 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að ógilda leyfi tveggja fyrirtækja fyrir mörgþúsund tonna laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði kann að vera fordæmisgefandi. Þetta segir umhverfisráðherra. Hann telur þörf á að ráðast í aðgerðir, bæði til skemmri og lengri tíma.

„Úrskurðirnir eru núna hjá viðkomandi stofnunum þannig að það sem við gerum í ráðuneytinu hjá mér og í atvinnuvegaráðuneytinu er að fylgjast bara mjög vel með þeim málum, þannig er staðan núna,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra. Hann telur að grípa þurfi til aðgerða sem lúti að úrskurðunum sérstaklega og kerfinu í heild. „Það er skammtímaverkefni sem fást við annmarka sem koma fram í úrskurðunum og síðan er langtímaverkefni að skoða þetta í heild sinni, hvort við getum straumlínulagað kerfið og gert það betra heldur en það er í dag.“ 

„Sálarlaus stjórnsýsla“

Úrskurðurinn hefur verið kallaður áfellisdómur yfir stjórnsýslunni, í sameiginlegri yfirlýsingu stjórnar Vestfjarðarstofu og sveitarfélaga á Vestfjarðarkjálkanum segir að stjórnvöld hafi með skorti á stefnu, aðgerðarleysi og mistökum haft grafalvarleg áhrif á atvinnuuppbyggingu og starfsöryggi fjölda manns. Þetta sé skýrt dæmi um sálarlausa stjórnsýslu. Það geti ekki verið vilji samfélagsins að stöðva allar framkvæmdir með flóknum kerfum sem tali ekki saman. Hver eru viðbrögð ráðherra við þessari gagnrýni? „Ég held að þegar úrskurður eins og þessi fellur, og það er ekki einsdæmi að úrskurðir falli á þann hátt að leyfi séu felld úr gildi. Þá er náttúrulega eitthvað sem hefur ekki verið gert nægilega vel eða hugað nógu vel að eins og fram kemur í þessum úrskurði og í þessu tilfelli er það þannig að þarna er þá um að ræða annars vegar Matvælastofnun og hins vegar Skipulagsstofnun.“ 

Skilur sjokkið 

En var sú meðferð sem framkvæmdaraðilar fengu hjá stjórnsýslunni sanngjörn? Guðmundur vill ekki dæma um það en segist skilja sjónarmið bæði framkvæmdaraðila og stofnananna sem málið varðar. „Sem telja sig vera að fara eftir öllum leikreglum, það er auðvitað ákveðið sjokk þegar það kemur úrskurður um að svo hafi ekki verið.“ 

Matsskýrslurnar uppfylltu ekki lagakröfur

Starfs- og rekstrarleyfi fyrir eldinu voru gefin út í desember. Í janúar kærði hópur náttúruverndarsamtaka, veiðiréttarhafa og landeigenda ákvörðunina. 
Niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála lá svo fyrir í síðustu viku og var sú að matsskýrslur sem fyrirtækin lögðu fram hefðu ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis þar sem ekki var fjallað um aðra möguleika en sjókvíaeldi í opnum kvíum með frjóum laxi af norskum uppruna. Það hefði til dæmis mátt skoða áhrif þess að ala geldfisk eða hafa kvíarnar á landi. Nefndin sagði slíka galla á matsskýrslum fyrirtækjanna að Matvælastofnun hefði borið skylda til að tryggja að atriði málsins væru nægilega upplýst. Í stuttu máli voru skýrslur fyrirtækjanna um mat á umhverfisáhrifum gallaðar og stofnanirnar sem áttu að kveikja á perunni og láta þau vita gerðu það ekki. 

Málið er í forgangi hjá Matvælastofnun og Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun skoða líka sína aðkomu að því. 

Starfsleyfin, sem heyra undir Umhverfisstofnun voru líka kærð og líklega von á úrskurði um þau á morgun.

Megi ekki kollsteypa atvinnulífinu fyrir vestan

Guðmundur Ingi segir að nú þurfi stofnanirnar að vinna úr þeim annmörkum sem komu fram í úrskurðinum. „Í þeirri vinnu þarf að vera rými til þess að hún sé unnin án þess að það komi niður á byggðunum fyrir vestan. Ég held að flestir vilji að það sé hægt að bæta úr þeim annmörkum sem þarna er talað um, sem er þá þetta, að það hafi ekki verið bornir saman valkostir um það hvernig eldið yrði úr garði gert.“ 

Þingmenn nokkurra flokka hafa talað fyrir því að stjórnvöld grípi inn í og ógildi jafnvel úrskurð úrskurðarnefndarinnar. Vill Guðmundur það? Hann svarar því ekki beint en segir mikilvægt að vera með almennar reglur og sömuleiðis að geta unnið úr annmörkunum án þess að það kollvarpi atvinnuvegum á Vestfjörðum. 

Hugsanlega fordæmisgefandi

Nú kann mat á umhverfisáhrifum og ferli í kringum aðrar leyfisveitingar að hafa verið sömu annmörkum háð - hafa þessir úrskurðir eitthvert fordæmisgildi? Þarf nú að endurskoða forsendur allra þeirra leyfa sem hafa verið veitt? Guðmundur Ingi segir að þetta varði kannski leyfi sem séu í leyfisveitingarferli eða kæruferli núna. 

„Ég man eftir því þegar það féll úrskurður fyrir nokkrum árum, hvort það voru Kröflulínurnar, Bakkalínurnar. Þá voru allavega einhver sveitarfélög sem voru í leyfisveitingaferli út af öðrum framkvæmdum sem fóru sérstaklega í að skoða með hvaða hætti væri hægt að mæta þeim úrskurði. Alltaf þegar það falla úrskurðir sem þessir held ég að stofnanirnar okkar, leyfisveitendurnir, það geta líka verið sveitarfélög, þá þurfa þau að sjá hvort eitthvað er líkt í þeim málum sem þau eru með til umfjöllunar. Það kann að vera, ég hef bara ekki yfirlit yfir það hvaða áhrif það gæti haft.“ 

„Ljóst að það þarf að skoða fleiri valkosti“

Guðmundur segir auðvelt að detta í það að reyna að finna sökudólgana en telur réttara að einbeita sér að því að vinna að því að leysa úr þeim hnökrum sem voru til staðar. 

„Það er alveg ljóst að það þarf að skoða fleiri valkosti og við verðum þá líka að líta til þess að fyrirtækin hafa sjálf lýst því yfir oft á tíðum, gerðu það meðal annars þegar ég fór og heimsótti þau fyrir vestan, að þau vilja gera sitt besta í umhverfismálum. Ég held að hluti af því núna, þegar búið er að komast að annmörkum eins og þessum, sé að fylgja þessu eftir og bæta úr þessu, það er er held ég aðalverkefnið núna og að því þurfa þessar stofnanir að vinna í framhaldinu.“ 

Huga verði að því hvaða möguleikar séu fyrir hendi í eldinu. Þeir séu kannski fleiri en horft hafi verið til hingað til. Í stjórnarsáttmálanum segi að fiskeldið sé mikilvæg atvinnugrein sem byggja þurfi upp með ítrustu varúð í samræmi við náttúruna. „Þetta er eitt af því, að finna leiðir til þess að draga úr líkunum á því að þessi fiskur sem er í eldi þarna, af norskum uppruna og frjór, að hann blandist við okkar villtu stofna.“ 

Vill hliðra kúltúrnum

En er hægt að segja að ferlið og samstarf stofnana sé í molum? Leyfin voru gefin út, þau voru kærð, það leið tæpt ár þar til úrskurðarnefnd felldi þau úr gildi. Guðmundur er ekki á því. „Flestir framkvæmdaraðilar sem ég hef talað við, Skipulagsstofnun sjálf, aðrar stofnanir og sveitarfélög finnst í rauninni mat á umhverfisáhrifum vera að virka ágætlega í grundvallaratriðum. Gagnrýnin sem hefur helst verið uppi er sú að það sé í raun ekki fyrr en alveg síðast í ferlinu, þegar leyfin fyrir starfseminni eru gefin út ,að þá fyrst sé hægt að láta reyna á ákvarðanirnar sem verið er að taka, sem byggja, eins og í þessu tilfelli, að hluta til á umhverfismatinu sjálfu. Þess vegna má spyrja sig, og þá getum við flett aðeins upp í stjórnarsáttmálanum þar sem kveðið er á um það að það þurfi að tryggja aðkomu almennings að ákvörðunum fyrr í ferlinu án þess að það gangi á rétt þeirra. Spurningin er þessi, getum við með einhverjum hætti reynt að færa kúltúrinn, samvinnuna og samtalið framar í ferlið þannig að almenningur, félagasamtök og aðrir sem hafa hagsmuni að gæta geti komið að því að móta hvaða valkostir séu teknir til greina alveg frá upphafi, það er að segja, þátttakan sé þannig að hún gerist á meðan enn sé hægt að hafa raunveruleg áhrif á ákvarðanatöku.“ 

Endurskoðar lög um mat á umhverfisáhrifum

Hann tekur skýrt fram að leyfisveitingarferlið þurfi alltaf að vera kæranlegt, þannig sé Evrópulöggjöfin sem okkar löggjöf byggir á. Hann veltir fyrir sér hvort það megi láta reyna á umhverfismatið fyrr þar sem því ljúki oft nokkru áður en til leyfisveitingar kemur. Þetta mætti til dæmis gera með því að taka upp sama fyrirkomulag og tíðkaðist fyrir rúmum áratug, að fela Skipulagsstofnun vald til að taka ákvörðun um hvort nægilega vel væri að umhverfismatinu staðið. Það yrði þar með kæranlegt fyrr í ferlinu. 

„Þetta er hugmynd sem ég mun leggja inn í þá vinnu sem framundan er og er eitthvað sem þarf að skoða hvort sé framkvæmanlegt og skynsamlegt og hvort þetta gæti með einhverju móti mætt þessum atriðum.“ 
Ráðherra setti í ágúst af stað heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.

Hann segir að stofnunum geti alltaf orðið á mistök og því sé réttur almennings og framkvæmdaraðila til að skjóta ákvörðunum þeirra til óháðrar nefndar mikilvægur en þessi afskipti þurfi að fara fram fyrr. 

Þessu til viðbótar hefur hann sett af stað vinnu með Skipulagsstofnun sem lýtur að því að fá fram samtal milli almennings, stjórnvalda og framkvæmdaraðila fyrr í ferlinu, strax á hugmyndastigi. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV