Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ljósmæður funda með forsætisráðherra

26.06.2018 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson/RÚV
Ljósmæður eiga fund í dag með forsætisráðherra vegna kjaradeilu þeirra. Þær greiða atkvæði á næstu dögum um yfirvinnubann. Næsti fundur ljósmæðra með sáttasemjara er á fimmtudag.

Samninganefnd ljósmæðra óskaði eftir fundi með forsætisráðherra eftir að þær felldu samning sem náðist við ríkið í lok maí. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndarinnar segir að hún vonist eftir lausnamiðuðu samtali við forsætisráðherra. „Við vonumst eftir að fá fram gott lausna miðað samtal. Við viljum að forsætisráðherra hafi sett sig inn í mál og geti jafnvel eitthvað hlutast í því að höggva á þennan hnút sem kominn er. Við förum fullar af bjartsýni inn á þennan fund með Katrínu í dag og okkur finnst gott og mikilvægt að fá fund með henni.“ 

Ljósmæður hafa verið án kjarasamnings í hátt í tíu mánuði. Þær gerðu óformlega skoðanakönnun meðal félagsmanna á hugsanlegum verkfallsaðgerðum. Katrín segir að þar hafi komið fram mikill vilji félagsmanna að boða verkfall á allri yfirvinnu umfram vinnuskyldu samkvæmt vinnuskýrslu. „Næsta skref er að gera löglega könnun á því sem verður framkvæmd að þriðja aðila og það mun fara í gang vonandi í dag en í síðasta lagi á morgun,“ segir Katrín.

Katrín segir að fimmtán dagar þurfi að líða frá því að verkfallstilkynning er afhent, þar til yfirvinnubannið taki gildi. Sé yfirvinnuverkfall samþykkt í kosningunni hefst það um miðjan júlí.