Ljóðræn fegurð en langdregin og endaslepp

Mynd: Ég er einfaldur maður – ég  / Ég er einfaldur maður – ég

Ljóðræn fegurð en langdregin og endaslepp

21.01.2020 - 10:57

Höfundar

„Myndin fjallar því fyrst og fremst um tungumál og samskipti á milli fólks sem er að reyna að skilja hvert annað,“ segir kvikmyndarýnir Lestarinnar um íslensku heimildarmyndina Ég er einfaldur maður – ég heiti Gleb.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Ég er einfaldur maður – ég heiti Gleb er ný íslensk heimildarmynd eftir Ingvar Þórisson. Myndin fjallar um einkennilegt vináttusamband Rússans Glebs Terekhin og hóps íslenskra myndlistarmanna, listamanna í hinu svokallaða Félagi Hreiðars heimska og fleiri sem fengu áhuga á Gleb og tengslum við Íslands.

Til útskýringar þá er Hreiðar þessi lítt þekkt persóna kemur fyrir í Hreiðars þætti heimska sem telst til Íslendingaþátta. Hefur Hreiðar þessi sennilegast verið seinfær eða með einhvers konar þroskahömlun en bjó þó yfir visku og lífssýn hins einfalda fífls sem þessi hópur listamanna tengdi við og kölluðu sig „hreiðarsista“. Birgir Andréssson, Kristján Guðmundsson, Magnús Pálsson og Ólafur Lárusson skipuðu þennan hóp ásamt fleirum og koma fram í myndinni ásamt Áslaugu Thorlacius, Finni Arnarsyni og fleirum sem taka á móti Gleb þegar hann kemur til Íslands.

Ástæða Íslandsferðar Glebs, vináttunnar við „hreiðarsistana“ og að endingu gerð heimildarmyndarinnar voru óvenjuleg og litrík bréf sem Gleb hóf að senda til fjölmiðla á Íslandi árið 1994 þar sem hann óskaði eftir eiginkonu á Íslandi. Gleb sendi meira að segja bréf til Kvennalistans, en það var þannig sem Áslaug Thorlacius komst í kynni við skrif Gleb en hún og Finnur eiginmaður hennar aðstoða Gleb löngu síðar við komuna til Íslands. Hugmyndina að myndinni átti hins vegar Solveig Thorlacius heitin, systir Áslaugar en það var í kringum 2005 sem tökur hófust eins og fram kemur í viðtali við leikstjórann í Fréttablaðinu. Myndin um Gleb er því búin að vera nokkuð lengi á leiðinni.

Þetta er óneitanlega kómískt efni, fertugur rússneskur bílstjóri sendir einlæg bréf á alla helstu fjölmiðla Íslands og meira að segja sjálfan Kvennalistann þar sem hann óskar eftir eiginkonu. Það er hins vegar á endanum aukaatriði þegar á hólminn er komið. Enda er það nú ekkert endilega svo óvanalegt að einmana karlmenn auglýsi eftir eða finni sér eiginkonur í löndum sem eru þeim framandi.

Mér fannst myndin reyndar nokkuð langdregin, kannski misheppnuð vegna þess að brandarinn og forsendurnar verða nokkuð endasleppar, það er verið að reyna að hjálpa Gleb og búa til einhverja atburðarás sem aldrei verður neitt úr einhvern veginn – sem er þó að einhverju leyti í anda „hreiðarsistanna“. Það sem stendur upp úr í myndinni að mínu mati er hversu heillaðir listamennirnir og aðrir voru af óvanalegri og frumlegri málnotkun Gleb. Það er til marks um hversu lítill og einangraður málheimur íslenskunnar er að orðabókaþýðingar einlægs Rússa verða til þess að hann er fluttur inn til Íslands og gerð um hann heimildarmynd. Það er óneitanlega ljóðræn fegurð fólgin í því og Gleb er sannarlega ljóðskáld í augum listamannanna.  

Myndin fjallar því fyrst og fremst um tungumál og samskipti á milli fólks sem reynir að skilja hvert annað. Gleb er á endanum ekki endilega sá djúpvitri einfeldningur sem listamennirnir höfðu vonast eftir og eiginkonuna finnur Gleb ekki heldur. Þau eiga þó saman góðar stundir, íslenska móttökunefndin og Gleb. Uppáhaldsatriðið mitt er þegar húsráðandi í sumarbústað sem Gleb er gestkomandi í bannar öllum að vaska upp nema hann fái að sýna hvernig eigi að gera það rétt, Gleb lætur það sem vind um eyru þjóta og vaskar bara samt upp, ef til vill kominn með nóg af vitleysisganginum.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Vítahringur ofbeldis sem erfist milli kynslóða

Kvikmyndir

Broccoli: Bond á að vera karlmaður

Kvikmyndir

Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna

Kvikmyndir

Tekjuhæsta ár kvikmyndasögunnar