Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ljóð sem sveiflast milli fegurðar og viðbjóðs

Mynd: Benedikt / Benedikt

Ljóð sem sveiflast milli fegurðar og viðbjóðs

20.12.2017 - 16:08

Höfundar

Það eimir af malurtum Baudelaires og árstíðar helvítis Rimbauds í ljóðabók Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Flórída, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi Víðsjár. Ljóðin „sveiflast milli sjálfsöryggis og örvæntingar, fegurðar og viðbjóðs, ekki gleði, en örugglega sorgar.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Bóhemlíf í Berlín gæti verið klisjukennd en jafnframt ágæt fyrirsögn á umfjöllun um þessa prósaljóðabók Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Flórída. Sá þáttur bókarinnar er þó að mörgu leyti aðeins sögusvið, en kannski líka vísun til annarra bóhemskálda, frá löngu liðnum tíma sem ortu í annarri borg. Það er eins og eimi af malurtum Baudelaires og árstíðar helvítis Rimbauds í þessum ljóðum sem sveiflast milli sjálfsöryggis og örvæntingar, fegurðar og viðbjóðs, ekki gleði, en örugglega sorgar.

Þetta er fyrstu persónu verk þar sem ljóðmælandinn tjáir sig í brotum sem flakka á milli staða og í tíma, þótt meginhluti textanna vísi til Berlínar sem atburðasviðs. Textinn er að sumu leyti eins og saga, það er augljós framvinda þótt hún sé brotin harkalega upp með endurlitum og hugleiðingum. Þetta er ekki þroskasaga, en samt saga konu sem fer í gegnum einhvers konar helvíti án þess að hika, eða eins ljóðmælandinn segir á einum stað: „Fékk svo íbúð á Skalitzer Straße og vinnu við að skúra á nærfötunum heima hjá körlum sem snertu sig í laumi. Á sunnudögum seldi ég pönkurum heimabakaðar triple chocolate cookies á Kottbusser Tor, keypti tóbak og kjúklingabaunir fyrir ágóðann, hugsaði aldrei, heim, aldrei. (34)

Þessar raunir eru þó minnstar þeirra sem upp eru taldar í bókinni, það er átakanleg og samtímis einhvern veginn kaldranaleg klifun á myndmáli eggja og eggjaskurna; kaffi er drukkið úr eggjabökkum og það verður kannski skiljanlegt þegar ýjað er að broti á því eggi sem konunni stendur næst,vísast oftar en einu sinni, lesandinn verður að túlka hér fyrir sig þar sem ekkert er sagt berum orðum.

Bókin skiptist í 7 bálka eða kafla. Sá fyrsti heitir eins og fígúran sem titlar bókina og er hún kynnt þar til sögu í Berlín áður en litið er snöggt til baka í fyrri kafla af tveimur sem heita einfaldlega Heima og Heima II. Höfundi tekst sérstaklega vel upp í þeim fyrri, má nánast nefna það ljóðrænt snjallræði þar sem ljóðmælandinn liggur á skurðstofubekknum og læknirinn segir henni að telja aftur til tíu, sem hún gerir og lítur yfir líf sitt, eða einstaka atburði, ímyndaða eða ekki, við hverja tölu og niðurstaðan er að hún lendir á Schönefeld flugvelli í Berlín og byrjar þar sitt bóhemlíf, ekki endilega fríviljug, en alveg jafn einbeitt og áður.

Heima II lýsir svo, í brotakenndum leiftrum, lífinu í Kreuzberg í Berlín, því hverfi sem listamenn og innflytjendur setja svo mikinn svip á og er þess vegna miðstöð gerjunar í borginni. Það er heldur ekkert smáborgaralíf sem lýst er í þessum snörpu myndum: „Ekki búast við að geta valið þér litríkan Múmínbolla eftir því hvort þú ert meiri Mía eða Snorkstelpa.“ (40)

Kaflinn sem á eftir fer ber þann sérstæða titil 450 ár og er ekki laust við að þessi lesandi lyfti brúnum yfir þessu og ekki síður þegar fram koma vangaveltur um plast og að það tekur plast 450 ár að leysast upp og verða að jarðvegi. Eitt augnablik hvarflaði að mér að hér væri að hefjast einhvers konar tilraun til umhverfisljóðlistar, en við nánari og annan lestur kom í ljós að svo var ekki, til allrar hamingju held ég verði að segja, þetta var aðeins líkingamál og ærið harmrænt: „Það tekur kirsuberjablóm sólarhring að leysast upp. Það tekur einn gosflöskutappa fjögur hundruð og fimmtíu ár.“ (56). Í þessum sama kafla kynnist konan líka manni sem hún kallar bara C.

Mjúkar hendur Flórída segir svo frá Flórídu sem flytur inn til hennar og verður lifandi táknmynd hins strandaða bóhems sem ekki á neina framtíð lengur, aðeins augnablik fortíðar, sem var kannski ekki svo glæsileg þegar á allt er litið. Að einu leyti virðist Flórída vera speglun á ljóðmælanda, speglun inn í framtíðina, eða hvernig hún hefði getað endað; á hinn bóginn hefur sagan af Flórídu sígilt hlutverk frásagnartafar og virkar vel á þann hátt. En saga hinnar raunverulegu hetju þessarar bókar heldur miskunnarlaust áfram í kaflanum You Sure Look Depressed.

Hún er aftur komin til læknis í fylgd mannsins sem hún kallar C og það fer lítið á milli mála hvaða aðgerð fór fram þar: „It‘s OK to be sad, sagði uppörvandi móttökuritari á leiðinni út.“ (85) Harmræn íronían nær svo hámarki þegar ljóðmælandinn segir eftirfarandi:

Maður getur lært að búa til plast úr mjólk og ediki á Youtube. Ég reyndi að kreista mjólk úr geirvörtunum en það kom ekki neitt, þrátt fyrir tilraunir mínar með manninum sem ég kalla C. Svo ég keypti nokkra lítra af mjólk af kaupmanninum á horninu og lét það duga, í fyrstu tilraun.

Hold er gagnslaust.

Líkami minn er gagnslaus.

Það tekur plast 450 ár að leysast upp í mold. (88)

Lokakaflinn, Immer bereit – ég býst reyndar ekki við að vísunin sé til skátanna eða gamallar lofgjarðar til Erichs Honeckers og annarra DDR pótintáta sem út kom á kvikmynd 1950, ef trúa má Netinu nýja, – lokakaflinn dregur fram einhvers konar svar til annarrar fígúru sem leikur lítið, en jafnframt stórt hlutverk í þessari bók. Herr Fleischer er maður sem allir sem hafa flutt til Þýskalands og búið þar um tíma hafa kynnst. Hann getur verið húsvörður, starfsmaður í útlendingastofnun, leigusali eða eitthvað þvíumlíkt. Hann er maðurinn sem manni finnst undirstrika stimpilmyndina af Þjóðverjum, í raun og veru maðurinn sem hefur tekið það hlutverk að sér. Hann er smáborgarinn með örlítil völd og finnst það gott. Herr Fleischer er að vissu marki andstæða fyrir söguhetjuna, kallar hana alltaf Frau Schneebär og þýðir þannig föðurnafn hennar á þýsku, ekki af virðingu við hana, heldur vegna þess að það er auðveldara fyrir hann að segja það þannig. Hún þarf að eiga við hann í gegnum allan tímann, að því er virðist og koma samræður þeirra og athugasemdir hennar um hann reglulega fram í textanum.

Lok bókarinnar eru býsna nöpur og að sumu leyti köld kveðja til Berlínar og bóhemlífsins, maður veit ekki, kannski hefði söguhetjan átt að fara heim þegar henni datt það ekki í hug. En þá hefðum við heldur ekki fengið að lesa þessa bók.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bestu íslensku skáldverk ársins

Bókmenntir

„Hún er afkvæmi míns vanskapaða huga“

Bókmenntir

„Persónuleg í sjötta veldi“

Bókmenntir

„Nú á ég bleika Crocs-skó“