Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Litlar undirtektir sveitarfélaga vonbrigði

22.12.2016 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Samninganefnd Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum segir stöðuna í kjaraviðræðum þeirra við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga óviðunandi og að samtal síðustu daga hafi litlum árangri skilað. Það séu vonbrigði að sveitarfélögin og Reykjavíkurborg hafi ekki séð sér fært að koma meira til móts við tónlistarkennara.

Samninganefndin hafi á kjarafundi á þriðjudag lagt til að gerður yrði skammtímasamningur. Með slíkum samningi gæfist tækifæri til þess að ráðast í umbætur á kjarasamningnum og meðal annars meta kosti og galla þess að færa launaumhverfi félagsmanna nær því sem gerist hjá kennurum og stjórnendum í öðrum skólum. Samninganefndin lagði til að þeirri vinnu lyki á næsta ári, segir í tilkynningu. Jafnframt lagði samninganefndin til að félagsmenn fengju eingreiðslu til að bæta þeim að einhverju leyti lægri launasetningu í rúmt ár vegna tafa við samningsgerðina. Samninganefndin hafi ekki gert ráð fyrir öðrum launabreytingum en þeim sem samninganefnd sveitarfélaganna hafði þegar lagt fram.

Samninganefnd Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum segir það vonbrigði að stuttur samningstími og eingreiðsla hafi ekki fengið meiri undirtektir hjá samninganefnd sveitarfélaga.

 

Tónlistarskólakennarar samþykktu kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í byrjun desember 2014. Samningurinn gilti í eitt ár og rann út í lok október í fyrra. 

 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV