Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lítilsvirðandi að vera skilinn eftir af strætó

21.07.2019 - 20:33
Mynd: Grímur Sigurðsson / RÚV
Manni í hjólastól sem neitað var um aðgang að strætó vegna þess að hann var einsamall, segir að það hafi verið lítilsvirðandi og niðurbrjótandi. Það er brot á starfsreglum Strætó að neita honum um aðstoð.

Magnús Jóel Jónsson sagði á Facebook frá atviki sem henti hann þegar hann beið eftir strætó skammt frá heimili sínu. Magnús, sem notast við hjólastól, ætlaði í bakarí með strætó.

Hann hefur margoft tekið strætó einsamall en í þetta sinn neitaði vagnstjórinn að hjálpa honum með rampinn fyrir hjólastólinn. Vagnstjórinn sagði að Magnús þyrfti að hafa með sér aðstoðarmann til að sjá um það, það væri ekki hans hlutverk. „Ég segi honum að ég eigi jafnan rétt og hver annar að nýta mér almenningssamgöngur og hann lokar hurðinni og keyrir í burtu," segir Magnús Jóel.

Lítilsvirðandi og niðurbrjótandi

Vagnstjórar séu í flestum tilfellum til fyrirmyndar en þessi reynsla hafi verið lítilsvirðandi og niðurbrjótandi. „Ég alla vega varð reiður, pirraður og fannst mér mjög misboðið, ég er ekki sá maður sem er alltaf að kvarta og kveina en þarna var mér algerlega misboðið," segir Magnús.  

Brot á starfsreglum að neita fólki í hjólastól um aðstoð

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir miður að þetta hafi gerst og hefur fulltrúi Strætó haft samband við Magnús og beðið hann afsökunar.

„ Í fyrsta lagi því þetta er brot á starfsreglum, vagnstjórar eiga að hoppa til og aðstoða farþega sem eru í hjólastól að komast um borð í bílinn og í öðru lagi þá erum við þjónustufyrirtæki og við fylgjum ákveðnum gildum og við viljum að vagnstjórar og starfsfólk strætó sé kurteist og hjálpsamt og sé að aðstoða," segir Guðmundur.

Vitað sé hver vagnstjórinn er og gripið verði til ráðstafana vegna málsins. „Við ætlum að byrja á því að rannsaka málið betur, tala við vagnstjórann og það þarf bara að skerpa á þessu verklagi um hvaða reglur eru í gildi og hvaða vinnulag er í gildi um að taka við fólki í hjólastól," segir Guðmundur.

„Það er bara fjöldinn allur af fólki í misjöfnu ásigkomulagi í samfélaginu og við þurfum að vera opin fyrir því að leyfa því að taka þátt," segir Magnús Jóel.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður