Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lítill áhugi á að taka á móti hælisleitendum

10.04.2019 - 10:42
Útlendingastofnun
 Mynd: ruv
Sautján sveitarfélög hafa svarað bréfi frá Útlendingastofnun þar sem kannaður er áhugi á að taka við hópi hælisleitenda. Aðeins tvö þeirra ætla að skoða málið betur.

Útlendingastofnun sendi í mars bréf til allra sveitarfélaga landsins þar sem kannaður var áhugi þeirra á að taka við hælisleitendum. Af þeim hafa 17 sveitarfélög svarað og aðeins tvö þeirra segjast tilbúin til að skoða málið betur. 

Margvíslegar ástæður

Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri verndarsviðs hjá Útlendingastofnun, segir að ástæður þess að sveitarfélög sjái sér ekki fært að taka á móti umsækjendum séu margar. „Meðal annars þær ástæður að það er verið að taka á móti kvótaflóttafólki, eða verkefni er ekki talið henta vegna stærðar sveitarfélags eða húsnæðismála. Þetta eru náttúrulega nokkuð mörg svör og við erum ennþá að bíða eftir svörum frá nokkrum sveitarfélögum.“ 

Fljótsdalshérað er eitt þeirra sveitarfélaga sem ekki sjá sér fært að taka á móti umsækjendum. Anna Alexandersdóttir, formaður bæjarráðs, segir að ástæðan sé fyrst og fremst húsnæðismarkaðurinn. Leigumarkaður sé takmarkaður og það hafi verið þröskuldur sem þau hafi séð strax þar sem þessir innviðir séu ekki nógu öflugir, eða ekki til staðar. 

Tæplega fimmtíu umsækjendur

Útlendingastofnun er nú þegar með þjónustusamning við Hafnafjarðarkaupstað, Reykjanesbæ og Reykjavíkurborg. Umsóknum frá hælisleitendum hefur fjölgað mikið og því er ljóst að þeir samningar duga ekki til. Óskar Útlendingastofnun eftir því að gera samning vegna tæplega 50 umsækjenda en til greina kemur líka að taka við minni hópum. Í samningunum er gert ráð fyrir ákveðnu daggjaldi sem sveitarfélögin fá til að standa undir húsnæði, fæði og þjónustu fyrir hópinn. Eins er gert ráð fyrir stöðugildum til að sinna þessari þjónustu. „Þannig að það er í sjálfu sér enginn beinn kostnaður sem fellur á sveitarfélagið sjálft“, segir Þorsteinn. 

Bæjarráð Akureyrar fól bæjarstjóra að skoða málið áfram með sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Þá hefur bæjarráð Garðabæjar falið bæjarstjóra að hafa samband við Útlendingastofnun.

Þau 15 sveitarfélög sem hafa nú þegar svarað útlendingastofnun og sjá sér ekki fært að ganga til samninga við stofnunina  eru Árborg, Dalabyggð, Egilsstaðir, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Grindavíkurbær, Hvalfjarðarsveit, Hveragerðisbær, Kjósarhreppur, Reykjanesbær, Seltjarnarnes, Skagafjörður, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Vogar. Útlendingastofnun segir þó að þetta sé ekki tæmandi listi og er hann aðeins byggður á þeim svörum sem hafi borist og verið skráð.