„Lítið tillit tekið til sjónarmiða stéttarinnar“

29.11.2019 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Með nýju frumvarpi til laga um leigubifreiðaakstur, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram, er lagt til að fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubifreiðaaksturs verði afnumdar og skylda til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð sömuleiðis. Þá standi til að opna á starfsemi fjarveitna svo sem Uber og Lyft. Framkvæmdastjóri Hreyfils segir að menn séu uggandi um sinn hag.

Sömu skilyrði gilda um farveitur og leigubifreiðastöðvar

Verði frumvarpið að lögum tekur það gildi 1. júlí 2021. Í svari frá samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu segir að með frumvarpinu séu stigin ákveðin skref sem geri farveitum, sem nýti nútímatækni til viðskipta, kleift að hefja starfsemi hér á landi.

Farveiturnar þurfi þó að fullnægja öllum sömu skilyrðum og leigubifreiðastöðvum verði gert að fullnægja. Þá þurfi bílstjórar, sem bjóði þjónustu sína hjá slíkum farveitum, að uppfylla skilyrði laganna með sama hætti og hafa gilt rekstrarleyfi og eftir atvikum atvinnuleyfi. 

„Sem dæmi má nefna þyrftu Uber eða Lyft að vera með fullgilt starfsleyfi leigubifreiðastöðvar og hafa starfsstöð hér á landi í samræmi við ákvæði í drögum að frumvarpinu,“ segir í svörum frá ráðuneytinu.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmiðið með þessu sé að „opna leigu­bif­reiðamarkaðinn fyr­ir auk­inni sam­keppni bæði á sviði verðs og þjón­ustu og skapa skil­yrði fyr­ir ný­sköp­un í grein­inni án þess þó að slaka á kröf­um hvað varðar gæði og ör­yggi þjón­ust­unn­ar.“ Þá kemur fram að neytendur hafi kallað eftir því að þetta verði gert. Mbl.is greindi fyrst frá. 

Segir menn uggandi um sinn hag

Þröstur Hjálmarsson, deildarstjóri hjá Hreyfli, segir ekkert vera að því að fá Uber, Lyft eða aðrar farveitur hingað, ef þær þurfi að fara eftir nákvæmlega sömu lögum og allir aðrir á markaðnum. „Þá erum við ekki smeyk við að þjónusta hjá okkur verði eitthvað lakari en sú sem þeir bjóða upp á.“ Hann bendir þó á að margar Evrópuþjóðir séu nú að loka á, eða að íhuga að loka á, slíkar veitur. 
 

epa08024130 (FILE) - An image showing an Uber app on a mobile phone in central London, Britain, 22 September 2017 (re-issued 25 November 2019). Media reports on 25 November 2019 state the Transport for London (TfL) has said it would not continue to grant Uber a licence to operate in London. Uber, that first lost its licence due to safety concerns in 2017 but received a 15-month license for operating in London, said it would appeal the decision. Uber, that has some 45,000 drivers working in London, will continue to operate during the appeal process.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA

„Okkur finnst lítið tillit tekið til sjónarmiða stéttarinnar,“ segir Haraldur Axel Gunnarsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, en fyrirtækið skilaði inn tveimur umsögnum við málið. Þeim þyki að aðilum sé ekki gert jafnt undir höfði í skattalegu tilliti. Hreyfill geri upp skatt hér á landi en farveitur, sem taki gjarnan um tuttugu til þrjátíu prósent í umboðslaun, flytji þau úr landi.

Haraldur Axel segir að menn séu uggandi um sinn hag. Það segi sig sjálft að þegar fleiri komi inn á markaðinn lækki laun þeirra sem fyrir eru. Hér eigi sér stað félagslegt undirboð. 

Segir flesta leigubílstjóra sorgmædda yfir nýju frumvarpi

Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri BSR, segir flesta leigubílstjóra sorgmædda yfir nýja frumvarpinu og boðuðum breytingum, sem hann segir að muni leiða til verri þjónustu og gera leigubílstjórastarfið að jaðarstarfi. Fjöldatakmörkunin þýði að nýting bílanna sé betri og bílstjórar fái því betri afkomu. Hætt sé við því að fjöldi bílstjóra gefist upp verði takmörkunin afnumin.

„Ef stjórnmálamenn kynna sér þetta betur og halda með litlum fyrirtækjum, vegna þess að hver leigubílstjóri er í dag í raun lítið fyrirtæki, þá hafna þeir þessu frumvarpi. Ef þeir eru hins vegar fylgjandi erlendum fyrirtækjum og að peningar safnist á fárra manna hendur, þá styðja þeir þetta.“ Því sé ekki hægt að bera fyrir sig frelsishugtakið í þessu samhengi.

Verði opnað fyrir starfsemi erlendra farveitna hér á landi muni leigubílastöðvar, sem eru með símaafgreiðslu, fækka starfsfólki „og nóg hefur verið af uppsögnunum í hinum ýmsu greinum hér undanfarin ár. Það er ekki það sem fólkið í landinu þarf á að halda,“ segir hann.  

Menn mættu þegar hafa meira að gera

Greint hefur verið frá því að Gylfi Ásmundsson, formaður Bílstjórafélags Akureyrar, óttist að leigubílastöðin BSO leggist af verði frumvarpið að lögum.

Nú séu 22 bílstjórar með leyfi á Akureyri og þar mættu menn hafa meira að gera. Verði akstur gefinn frjáls geti menn ekki lengur framfleytt sér á þessu starfi þar. Hann voni að þingmenn kynni sér stöðu mála. 

Á að tryggja örugga og skilvirka leigubílaþjónustu

Í frumvarpinu segir að markmið þess sé að „tryggja gott aðgengi að hag­kvæmri, skil­virkri og ör­uggri leigu­bif­reiðaþjón­ustu fyr­ir neyt­end­ur á Íslandi.“ Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að til verði tvenns konar leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur, rekstrarleyfi og atvinnuleyfi. Þá eru gerðar breytingar á skilyrðum til þess að mega starfa sem leigubifreiðastjóri og þau gerð skýrari.

Einnig er nýjum lögum ætlað að tryggja að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, segir í svari frá ráðuneytinu, en Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði athugasemdir við íslenska leigubílamarkaðinn fyrir tveimur árum. Þar sagði að íslensk löggjöf um leigubifreiðar fæli mögulega í sér aðgangshindranir sem ekki samrýmdust EES-samningnum.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi