Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lítið svigrúm fyrir nýframkvæmdir í samgöngum

03.03.2017 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki verður ráðist í nýframkvæmdir á vegi um Skógarströnd, Dynjandisheiði og á flughlaðinu á Akureyri á þessu ári. Þetta segir samgönguráðherra. Við forgangsröðun vegaframkvæmda var litið til framkvæmda sem þarf að ljúka og öryggisbóta.

Mikið misræmi var milli fjárlaga ársins 2017 og samgönguáætlunar, eða tæpir 10 milljarðar, og í fjárlagafrumvarpinu var tekið fram að til að mæta ósamræminu þyrfti að skera niður samgönguáætlun. Innanríkisráðuneytið hefur undanfarið unnið að forgangsröðun verkefna. 

„Það voru náttúrlega mörg verkefni sem voru komin af stað sem þurfti að halda áfram með og klára en síðan hafa menn ekki síst haft til hugsjónar umferðaröryggismál, “ segir Jón Gunnarsson, samgönguráðherra.

Hann segir ekki vera mikið svigrúm fyrir nýframkvæmdir. Haldið verður áfram með Dettifossveg með hálfan milljarð minna en áætlað var en ekki ráðist í nýframkvæmdir á Uxahryggjum, Kjósaskarðsleið og ný leið yfir Hornafjarðarfljót eða á vegi um Skógarströnd á eins og samkvæmt samgönguáætlun. Ekki er gert ráð fyrir fé í flughlaðið á Akureyrarflugvelli. Aukni fjármagni verður þó varið í viðhald og er aukið viðhald á veginum um Skógaströnd þar með talinn.

Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir fé í Vestfjarðarveg 60 um Gufudalssveit á þessu ári en hann er nú í matsferli hjá Skipulagsstofnun vegna umhverfisáhrifa og niðurstöðu að vænta í lok mars. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni í verkefnið eins og er.

„Um leið og leið og þetta klárast, valið á vegstæðinu og undirbúningur að því þá verður hægt að hefja þar framkvæmdir. Það verðir eitt af þeim málum sem verða klárlega í forgangi hjá okkur,“ segir Jón.