Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Lítið bólar á efndum Alþingis

30.09.2012 - 20:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Enn bólar ekkert á nýrri þjóðhagsstofnun, stjórnsýsluúttekt á Seðlabankanum eða Fjármálaeftirlitinu né opinberri rannsókn á lífeyrissjóðunum. Alþingi ályktaði í hitteðfyrra að þetta og fleira skyldi í höfn í síðasta lagi á morgun.

Fyrir tveimur árum voru þingmenn sammála um að þetta væru mikilvægar úrbætur. Í kjölfar stóru rannsóknarskýrslunnar skipaði Alþingi sérstaka naflaskoðunarnefnd undir forystu Atla Gíslasonar. Landsdómsmálið, sem endaði með dómi yfir Geir Haarde er hluti af arfleifð nefndarinnar, sem og ítarleg þingsályktun um bætt vinnubrögð, ýmsar breytingar á lögum og sjálfstæðar rannsóknir. Sú ályktun var samþykkt einróma með sextíu og þremur atkvæðum á þingi. Tiltektinni skyldi ljúka fyrir 1. október 2012, sem er á morgun. 

Sá hluti sem fjallar um breytta og bætta löggjöf er í tólf liðum. Einhverju er lokið, sumt komið vel á veg en í flestu er þó langt í land. Til að mynda er komin ný löggjöf um fjölmiðla og þingsköpin hafa verið tekin í gegn. Stjórnarskrárbreytingar eru í ferli en ekkert hefur verið snert á lögum um landsdóm eða ráðherraábyrgð. 

Í ellefta liðnum er mælt fyrir um að stofna skuli nokkurs konar nýja Þjóðhagsstofnun, það er sjálfstæða ríkisstofnun sem fylgist með þjóðahagsstærðum og semji þjóðhagsspá. Sú stofnun er ekki til. 

Og fyrir morgundaginn átti að vera búið að klára þrjár rannóknir eða úttektir. Í fyrsta lagi sjálfstæða og óháða rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna frá 1997. Það er ekki byrjað á henni. Rannsókn á sparisjóðunum er komin af stað, en óhætt að fullyrða að hún klárast ekki í kvöld. Í þriðja lagi er ekki búið að gera stjórnsýsluúttekt á Seðalabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Úttektir af slíku tagi eru iðulega unnar af Ríkisendurskoðun, í þessu tilfelli fórst fyrir að senda þeim póst og biðja þá að ganga í málið.