Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Lítið af gosefnum til Evrópu

26.08.2012 - 19:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Mjög lítið barst af gosefnum til Evrópu á meðan á Eyjafjallajökulsgosinu stóð. Gervitunglagögn vanmátu hins vegar magnið af fíngerðustu gjóskunni. Þetta sýna niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar.

Um tvö ár eru síðan gaus í Eyjafjallajökli og hafa á annað hundrað greinar verið skrifaðar um það síðan þá. Sagt er frá niðurstöðum umfangsmikillar rannsóknar í vísindatímaritinu Scientific Report og standa að henni þrettán vísindamenn, bæði innlendir og erlendir. Þar eru teknar saman niðurstöður mælinga á 400 stöðum. Eyjafjallajökulsgosið er óvenjulegt. Það framleiddi mjög fínkorna gjósku og stóð mjög lengi.

Vanmátu gjóskumagn

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að gosið hafi verið meðalstórt á íslenskan mælikvarða en það þurfi að fara aftur til Kötlugoss 1918 til að finna meiri gjóskuframleiðslu. Vindáttin varð til þess að gjóskan barst til Evrópu. „Við fáum út að þetta séu mjög lítið af efni sem  barst alla leið til Evrópu eða 0,02% af heildarefninu,“ segir Magnús Tumi.

Líkön og gögn frá gervitunglum eru notuð til að meta gjóskumagnið í loftinu. Í ljós kom að gervitunglagögnin vanmátu magn fíngerðustu gosefnanna sem eru hættulegust fyrir flugið. „Það var í raun tíu sinnum meira heldur en þessar gervitunglamælingar gerðu ráð fyrir. Þannig að þessar niðurstöður kalla á það menn munu þurfa að endurskoða túlkun á slíkum gögnum,“ segir Magnús Tumi.