Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Líta ekki á Ísland sem ódýrt land

23.06.2014 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðmálastjóri segir að alltaf sé hætta á of hárri verðlagningu eða okri á erlendum ferðamönnum, en samkeppni og orðspor eigi að koma í veg fyrir slíkt. Erlendir ferðamenn líta ekki á Ísland sem ódýrt land.

Í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum hafa að undaförnu verið nefnd dæmi um háa verðlagningu, jafnvel okur. Bílaleigubílar eru þrisvar sinnum dýrari hér en í nágrannlöndum. Dæmi eru um mjög hátt verð á gistingu, baðstöðum og veitingum. Nefnt hefur verið að kaffibolli kosti jafnvel 700 krónur og kleina með aðrar 700 krónur. Nýjasta dæmið er af súkkulaðikökusneið á veitingahúsi í Mývatnssveit sem kostaði 1290 krónur.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálstjóri segir að kannanir sýni að erlendir ferðamenn líti ekki á Ísland sem ódýrt land. „Í þeim könnunum hefur komið í ljós að vissulega þyki fólki ekki ódýrt að ferðast til Íslands, enda við ekki að leitast eftir því að Ísland verði ódýr áfangastaður. Fólki þykir verðlag fremur hátt en á sama tíma uppfylla ferðirnar væntingar manna, sem gefur til kynna að fólk sé ekki að upplifa það sem þú kallar okur,“ segir Ólöf Ýrr.

Aðspurð hvort það sé hætta á okri, að menn fari dálítið fram úr sér svarar Ólöf Ýrr: „Ég held að það sé auðvitað alltaf ákveðin hætta á slíku, eins og í öðrum atvinnugreinum. Samkeppnin á að koma í veg fyrir að menn komist upp með slíkt til lengdar. Auðvitað er það líka orðsporið sem skiptir öllu máli, fyrir einstök fyrirtæki, fyrir einstök landsvæði og fyrir landið í heild, sem er kannski hemillinn á að menn leiðist út í slíkt.“