Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lít frekar á mig sem tónskáld en söngvara

Mynd: Ísþjóðin / RÚV

Lít frekar á mig sem tónskáld en söngvara

22.03.2017 - 13:15

Höfundar

Hljómsveitin Kaleo hefur verið á tónleikaferðalagi meira og minna í tvö ár. Jökull Júlíusson, söngvari sveitarinnar, segir að honum líði stundum eins og hann búi í rútu og þykir honum virkilega gott að koma heim til Íslands. „Það kemur manni í rauninni bara á óvart hvað tengslin eru sterk, að koma heim. Maður nærist mikið á því,“ segir Jökull og bætir við að Íslandstengingin hjálpi vissulega, þeir finni fyrir miklum áhuga á Íslandi.

Nýjasta tónlistarmyndband hljómsveitarinnar er tekið upp við Fjallsárlón. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kaleo notar íslenska náttúru í myndböndum sínum því að strákarnir fóru ofan í Þríhnjúkagíg við upptökur á myndbandi við lag sitt Way Down We Go.

Jökull segist hafa fengið gott tónlistarlegt uppeldi heimafyrir og pabbi hans hafi kennt honum fyrstu gítargripin. Hann segist ekki hafa áttað sig á því fyrr en mjög seint að hann hefði góða söngrödd. Fyrst um sinn var hann feiminn við að syngja opinberlega og byrjaði í raun og veru ekki á því fyrr en um sautján eða átján ára aldur. „Ég lít alltaf meira á mig sem tónlistarmann, eða í rauninni tónskáld, frekar heldur en söngvara,“ segir Jökull.

Jökull Júlíusson í nærmynd

Ísþjóðin með Ragnhildi Steinunni hefur göngu sína á ný á sunnudagskvöldið. Í fyrsta þætti fáum við að vita allt um Jökul Júlíusson, lagahöfund og söngvara hljómsveitarinnar Kaleo. Jökull var á miðju tónleikaferðalagi þegar Ísþjóðin hitti hann í New York en sveitin var valin ein besta nýja rokksveit ársins 2016 á árslista Billboard og uppselt var á tónleikaferð hennar um Bandaríkin og Evrópu á árinu sem leið. Þá fór plata sveitarinnar, A/B, á topp tíu listann í nítján löndum. Kaleo er sem stendur á tónleikaferð í Kanada en sveitin er bókuð nær allt þetta ár.

Mynd: Ísþjóðin / RÚV
Ísþjóðin hefst á RÚV kl. 20.20 næsta sunnudag.

Í Ísþjóðinni skyggnumst við inn í líf ungra Íslendinga sem takast á við spennandi og krefjandi viðfangsefni. Meðal viðmælenda í komandi þáttaröð eru auk Jökuls, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur, Heiðar Logi Elíasson atvinnubrimbrettakappi og tónlistarkonan Glowie.

Tengdar fréttir

Tónlist

Kaleo kemur fram á Coachella

Popptónlist

Kaleo hlaða batteríin á Íslandi

Popptónlist

Kaleo í þriðja sæti á lagalista Billboard

Mynd með færslu
Menningarefni

Kaleo gerði myndband á ísjaka á Fjallsárlóni