Listin skapar framtíðina

Mynd:  / 

Listin skapar framtíðina

10.01.2020 - 14:15

Höfundar

„Óreiðan sem þarf að vera til staðar til að listin þrífist á engan dálk í Exelskjalinu,“ segir Erling Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna, um það hvernig áhersla á hagræna og listræna mælikvarða fer saman.

Erling var gestur Víðsjár á Rás 1 þar sem hann ræddi opinbera umræðu um listalífið í landinu en bandalagið heldur Listþing sitt í Hörpu á morgun, laugardaginn 11. janúar. Yfirskrift þingsins er Tungutak listarinnar og tungutakið um listina. Viðtalið við Erling má heyra hér. 

Bandalag listamanna hélt fyrst listmannaþing haustið 1942 að tillögu Páls Ísólfssonar tónskálds, en þingið fór fram í kjölfar listamannadeilunnar svokölluðu þegar Jónas Jónsson frá Hriflu sótti hart að listamönnum sem aðhylltust framúrstefnu í list sinni. 

Innblásnar framsögur

Undanfarin ár hefur Bandalag íslenskra listamanna af og til blásið til slíks þings en þingið fer nú fram í Kaldalóni í Hörpu og hefst kl. 14. Á listþinginu flytja nokkrir þjóðþekktir listamenn framsöguerindi um samtal listarinnar og samfélagsins og síðan taka við pallborðsumræður. Þeir listamenn sem taka til máls eru Ragnar Kjartansson myndlistarmaður, Kristín Ómarsdóttir rithöfundur, Ólöf Nordal myndlistarmaður og Ragnar Helgi Ólafsson rithöfundur og myndlistarmaður. 

Í tilkynningu um þingið segir meðal annars: 

Loftnet innsæisins og forgangsröðun eftir tilfinningu eru aðalvopn listamanna og misjafnt hversu mikla samleið listin á með vitsmunum og greiningum. Tilgangur lista er að skerpa skynjun, opna sýn inn í annan heim eða spegla þann sem við tilheyrum, sjá og upplifa heiminn frá óvenjulegum sjónarhornum, sjá fyrir það sem ekki er til en gæti orðið; m.ö.o. skapa framtíðina. Fáir sjá það fyrr en  eftir á að manngerð form, tónar, hugmyndir osfrv. eiga uppruna sinn og upphaf í listinni, hjá hinum skapandi öflum.

Samtal listheimsins og almennings hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Þrátt fyrir góðan vilja hefur mörgum reynst erfitt að eiga skapandi samtal um listina, þar sem mennirnir nálgast heiminn á  mismunandi forsendum, auk þess sem listin finnur sér stöðugt nýtt form, nýjan farveg og smýgur undan skilgreiningum.

Viðtalið við Erling Jóhannesson, forseta Bandalags íslenskra listamanna, um tungutak listarinnar og tungutakið um listina, má heyra hér að ofan.