Listamenn ósáttir við plastmálið

17.04.2012 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Plastmál með varalitarfari Jóhönnu Sigurðardóttur sem Sjónlistarmiðstöðin keypti hefur vakið óánægju listamanna á Akureyri. Kaupin eru sögð móðgun við uppbyggingu myndlistar í bænum.

Sjónlistarmiðstöðin tryggði sér plastmálið á uppboði í gegnum útvarpsþáttinn Virkir morgnar á Rás 2. Safnið greiddi 105 þúsund krónur fyrir málið og verður það hluti af sýningu sem opnuð verður í vor. Kaupin hafa vakið undrun listamanna í bænum sem sóst hafa eftir styrkjum frá miðstöðinni en komið að lokuðum dyrum.

„Ég heyri það að er bara mjög mikil óánægja. Það er kannski ekki undir hatti Sjónlistarmiðstöðvar að vera að styrkja þegar aðrir listamenn eru búnir að grátbiðja um styrki í hin og þessi verkefni sem sem viðkoma til dæmis afmæli Akureyrarbæjar,“ segir Guðrún Harpa Örvarsdóttir, formaður Myndlistarfélagsins.

Harpa segir að vissulega séu einnig skiptar skoðanir á því hvort plastmálið sé listaverk eða ekki og þá eftir hvern. „Ef þeir eru að gefa tóninn með þessu verki þá lýst mér ekki á framhaldið.“

Síðastliðin 10 ár hafa engir peningar verið eyrnamerktir til listaverkakaupa hjá Listasafni Akureyrar. Kaupin á málinu góða munu því verða flokkuð sem auglýsing í bókhaldi Sjónlistarmiðstöðvarinnar, sem varð til um áramótin við samruna listasafnsins og Menningarmiðstöðvarinnar í Ketilhúsi.

„Þetta er heilmikil móðgun við listamennina og uppbygginguna á myndlistinni sem við höfum verið að ræða um að sé svo mikilvæg þannig að maður spyr sig hvar fundu þau þessa peninga í þetta ef ekki er hægt að veita styrki í það sem við erum að fara að gera hér í sumar,“ segir Harpa.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi