Listahátíð á jaðri samfélagsins

Mynd: . / .

Listahátíð á jaðri samfélagsins

22.02.2017 - 10:17

Höfundar

Listahátíðin Dialogue hefst í London í dag, miðvikudag, og stendur fram yfir morgundaginn. Listrænn stjórnandi hennar er Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths.

Hún stýrir einnig meistaranámi við Guildhall School of Music and Drama í listrænni stjórnun, þar sem alþjóðlegt tónlistarfólk er þjálfað í þeim fræðum sem gera þeim kleift að semja nýja list við alls kyns samfélagslegar aðstæður sem og í samstarfi við listafólk úr öðrum listgreinum.

Hátíðin Dialogue Festival, sem fer fram á morgun og hinn, er í raun fimm vikna verkefni þar sem nemendur frá hinum ýmsu kúrsum við Guildhall skólann fara út í samfélagið til þess að stýra tónsmíðaferlum með ólíkum hópum, sem síðan koma saman til þess að sýna afrakstur vinnunnar.

Heimilisofbeldi og heimilisleysi

Hátíðin fer fram í Barking and Dagenham sem er borgarhluti í austur London sem á þann vafasama titil að vera höfuðborg heimilisofbeldis í Bretlandi og sá staður þar sem minnst þátttaka er í listum. Um 200 manns taka þátt í verkefninu, nemendur og kennarar Guildhall, framleiðsluteymi frá Barbican Guildhall Creative Learning, og almenningur frá Barking and Dagenham. 

Meðal þátttakenda er hljómsveitin The Messengers sem Sigrún stýrir sjálf og samanstendur hún af einstaklingum, sem eiga það sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti verið heimilislausir, auk nemenda úr Guildhall skólanum. Þau eru nú í samstarfi við útgáfufyrirtækið Luaka Bop og stefna á útgáfu fljótlega, en hljómsveitin hitaði upp fyrir hina kynngi mögnuðu PJ Harvey, ekki alls fyrir löngu.