Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Líst ágætlega á vantrauststillögu

24.03.2016 - 13:35
Mynd með færslu
Eiginkona forsætisráðherra upplýsti á Facebook að hún ætti félag í Bretlandi sem notað væri til að halda utan um arf hennar. Mynd: RÚV
„Mér líst ágætlega á það ef menn vilja sjá af tíma í það í störfum þingsins,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um vantrauststillögu sem sögð er koma til álita hjá stjórnarandstöðunni gegn honum. Hann var í viðtali í hádeginu á Útvarpi Sögu.

Eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, upplýsti fyrir níu dögum að hún ætti félag erlendis, sem síðar kom í ljós að er aflandsfélag á Tortóla og lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna fyrir röskan hálfan milljarð króna. Síðan þá hefur fréttastofa RÚV ítrekað óskað eftir viðtali við forsætisráðherra. Beiðnum fréttastofu hefur ýmist verið hafnað eða þeim ekki svarað, frekar en ýmsum skriflegum fyrirspurnum um málið. 

Fram hefur komið í fréttum að vantrauststillaga á forsætisráðherra hafi verið rædd í stjórnarandstöðuflokkunum. Í viðtalinu á Útvarpi Sögu í hádeginu segir Sigmundur Davíð að í umræðu um vantraust væri tilvalið að bera saman störf ríkisstjórnarinnar við störf fyrri ríkisstjórnar, sérstaklega hvað varðar gögn sem varða einkavæðingu bankanna á síðasta kjörtímabili, uppá hundruði milljarða, sem geymd eru í leyniherbergi sem einungis þingmenn megi fara í og skoða gögnin. „Ég held að það gæti verið ágætt að taka slíka umræðu,“ segir Sigmundur Davíð.  „Ég sé ekki hvað í þessu ætti að skaða hagsmuni samfélagsins.  Ég skil ekki þörfina á því að hafa þetta læst inni. Ég tel mikilvægt að upplýsingar um hvernig staðið var að eftirhrunsmálum sé gert opinbert því það er gömul saga og ný að oft geta viðbrögð við fjármálakrísu valdið meira tjóni en upphafleg krísa. Þess vegna verðum við að læra af viðbrögðum hér og hvort gerð hafa verið mistök og hvaða lærdóm megi draga af því.“ 

Sigmundur Davíð er í forsíðuviðtali í Fréttablaðinu í dag. Viðtal Ólafar Skaftadóttur við Sigmund Davíð má lesa í heild sinni hér.