Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Limlest ljón fundust á einkabúgarði

05.01.2020 - 01:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Átta ljónshræ fundust limlest á einkaveiðibúgarði í Suður-Afríku í gær. Lögregla tilkynnti í dag að rannsókn væri hafin þar sem þau hafi öll verið veidd ólöglega. Trýni og loppur dýranna voru skorin af þeim að sögn talsmanns lögreglunnar.

AFP hefur eftir suðurafrískum fjölmiðlum að veiðiþjófar hafi að öllum líkindum gefið ljónunum eitraðan kjúkling að éta. Talsmaður lögreglunnar staðfesti að kjúklingahræ hafi fundist nærri ljónunum og það sé til rannsóknar hvort ljónin hafi innbyrt kjúklinginn.

Ljónin voru drepin á búgarði í Swartruggens í norðvesturhluta Suður-Afríku. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins og ástæða drápanna er enn óljós. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV