
Lilja: Verðugt verkefni að sameina flokkinn
Lilja Alfreðsdóttir kom nokkuð óvænt inn í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þegar hún var skipuð utanríkisráðherra eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem forsætisráðherra. Hún tilkynnti formlega í morgun að hún gæfi kost á sér sem varaformaður - óháð því hver yrði næsti formaður. Lilja hafði þó sagt að hún vildi að Sigmundur Davíð yrði áfram formaður.
Eftir að úrslit lágu fyrir í formannskosningunni, þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson lagði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, lýsti Eygló Harðardóttir því yfir að hún ætlaði að draga framboð sitt til baka til varaformanns- tvær fylkingar hefðu tekist á innan flokksins um völdin og hún vildi með sinni ákvörðun reyna að lægja öldurnar. Eygló hafði sagt að hún myndi ekki gefa kost á sér yrði Sigmundur Davíð endurkjörinn.
Lilja segist í samtali við fréttastofu ekki óttast að flokkurinn klofni - stjórninni muni takast að koma í veg fyrir það þótt það verði auðvitað verðugt verkefni að sameina flokkinn. Hún hefur fulla trú á því að það takist en bætir við að það sé auðvitað alltaf ákveðið áfall þegar sitjandi formaður sé felldur.
Fyrr í dag sagðist Gunnar Bragi Sveinsson þurfa að hugsa sína stöðu eftir niðurstöðuna kosninganna í dag. Hann tilkynnti síðar að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér sem ritari flokksins - taldi það heiðarlegra gagnvart nýjum formanni flokksins.