Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lilja lækkar ráðgerða styrki til fjölmiðla

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Styrkir til einkarekinna fjölmiðla samkvæmt nýju fjölmiðlafrumvarpi verða samanlagt fjórðungi lægri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu sem kynnt var í ársbyrjun. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra kynnti frumvarpið í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna í dag. 

Fyrra fjölmiðlafruvarpið náði ekki á dagskrá Alþingis fyrir sumarleyfi, ekki síst vegna andstöðu nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins við að ríkið styrkti einkarekna fjölmiðla. Í fyrra frumvarpinu var gert ráð fyrir því að styrkir til fjölmiðla í formi endurgreiðslu yrðu 25 prósent af tilteknum hluta ritstjórnarkostnaðar.

Í nýju frumarpi er hlutfallið lækkað í 20 prósent. Hámarksfjárhæð endurgreiðsla verður áfram 50 milljónir króna á ári. Í fyrra frumvarpinu var gert ráð fyrir sérstökum stuðningi ríkisins sem átti að nema 5,15 prósenti af launum starfsmanna á ritstjórn sem eru í lægsta skattþrepi. Þetta hlutfall er lækkað í 3% í nýju frumvarpi. 

Kostnaður ríkisins vegna styrkja í fyrra frumvarpinu var samanlagður 520 milljónir á fyrsta. Sú upphæð lækkar í 400 milljónir í nýju frumvarpi. Þá hefur verið bætt inn í frumvarpið ákvæði um að endanlegt hlutfall sérstaks stuðnings ráðist af fjárframlögum á fjárlögum hverju sinni.

Eitt af því sem fjölmiðlar gagnrýndu í fyrra frumvarpi var ákvæði um tíðni útgáfu og stærð ritstjórna. Til þess að fá styrk þyrftu prentmiðlar að koma út 48 sinnum á ári og minnst þrír þyrftu að starfa á ritstjórn. Athugasemdir voru gerðar við að fjölmiðlar sem kæmu út sjaldnar fengju samkvæmt þessu ekki styrki - og stjórnendur stærri miðla sögðu að gera ætti kröfu um stærri ritstjórnir. Hvort tveggja er óbreytt milli frumvarpa.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það taki gildi um áramót og nái til rekstrarársins 2019.