Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Líkur á háu raforkuverði um sæstreng

13.11.2013 - 22:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Mun hærra verð gæti fengist í Bretlandi fyrir raforku um sæstreng en áður hefur verið talið raunhæft, segir Hörður Arnarson,forstjóri Landsvirkjunar. Á haustfundi fyrirtækisins var fjallað að miklu leyti um möguleikann á sæstreng milli Íslands og Bretlands.

Ríflega fimm hundruð manns mættu á haustfund Landsvirkjunar í dag og mun fleiri fylgdust með á netinu. Yfirskriftin var framtíð íslenskrar orku, vinnsla og sala hennar hérlendis, sem og möguleikinn á flutningi til Bretlands með sæstreng milli landanna. Það verkefni er í skoðun. Tölur sem birtar voru á fundinum sýna að bresk stjórnvöld eru tilbúin að greiða hátt verð fyrir endurnýjanlega orku.

„Bretar eru núna að tryggja orkuöryggið með því að fá inn bæði kjarnorku og endurnýjanlega orkugjafa,“ segir Hörður. „Verðin sem voru birt núna í haust eru umtalsvert hærri en búist var við, en það er bara kostnaður sem er við að byggja þessar orkuveitur í Bretlandi.“

Þótt viðræður um orkuverð héðan séu ekki hafnar, þykir ljóst að það verði talsvert hærra en áður hefur verið reiknað með. „Þetta, sérstaklega samningurinn við kjarnorkuverið, er mjög afgerandi. Þetta hvetur okkur til að skoða málið, en þetta er pólitísk ákvörðun sem enn á eftir að fjalla um í Alþingi,“ segir Hörður Arnarson.

Orkusala innanlands er það sem Landsvirkjun einbeitir sér að núna - og það er líka áhersla Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar og viðskiptaráðherra, eins og kom fram á fundi fyrirtækisins: „Það er ekki skortur á tækifærum finnst mér. Það koma til mín nærri því á hverjum degi forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa áhuga á að koma hingað. Þetta eru erlendir og innlendir fjárfestar með hugmyndir og ég vil fara að sjá þær hugmyndir verða að veruleika,“ segir ráðherra.