Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Líkur á frekari aðgerðum gegn Rússum

28.08.2014 - 19:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Allt bendir til þess að rússneskir hermenn berjist nú við hlið aðskilnaðarsinna gegn úkraínskum hersveitum í austurhluta landsins. Talsmaður Atlantshafsbandalagsins fullyrðir að meira en þúsund Rússar hafi verið sendir yfir landamærin. Rússar hafna þessum ásökunum.

Ný víglína hefur orðið til í átökunum í austurhluta Úkraínu, nálægt rússnesku landamærunum við strönd Svartahafsins, ekki langt frá úkraínsku hafnarborginni Mariopol. Nú er fullyrt að rússneskar hersveitir taki beinan þátt í hernaði aðskilnaðarsinna gegn hersveitum stjórnvalda í Kænugarði. Fulltrúar Atlantshafsbandalagsins birtu þessar gervihnattamyndir í dag sem sagðar eru sýna liðsflutninga og stórskotalið Rússa beggja vegna landamæranna; NATO fullyrðir að meira en þúsund rússneskir hermenn séu í Úkraínu.

„Ástandið hefur skyndilega stigmagnast í Donetsk-héraði, sérstaklega í Amrosievko og Starobeshevo, þar sem rússneskar hersveitir hafa verið sendar til Úkraínu," segir Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu. 

Rússar hafna þessum ásökunum og segja þær fjarstæðukenndar. Fimmtán almennir borgarar féllu í átökum í borginni Donetsk í dag og er borgin á valdi aðskilnaðarsinna. Leiðtogi aðskilnaðarsinna þar sagði í gær að þrjú til fjögur þúsund Rússar hefðu gengið til liðs við þá að undanförnu; sumir þessara manna eru sagðir rússneskir uppgjafahermenn - eða hermenn í leyfi frá skyldustörfum. Evrópskir leiðtogar hafa einum rómi fordæmt framferði Rússa. 

Þetta þýðir að við verðum að leggja málið fyrir leiðtogaráðið. Við gerðum það ljóst í mars á þessu ári að stigmagnaðist ástandið frekar, yrðum við að ræða frekari refsiaðgerðir," segir Angela Merkel Þýskalandskeisari. Francois Hollande, forseti Frakklands tekur í sama streng. „Evrópubúar þurftu að beita auknum refsiaðgerðum. Því verður haldið áfram og þær auknar enn frekar ef ástandið stigmagnast enn." 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var kallað saman klukkan fjögur að íslenskum tíma vegna ástandins í Úkraínu, og fulltrúar NATÓ koma saman á morgun. Á meðan halda átökin áfram og - eins og venjulega - eru það almennir borgarar, sem verða hvað verst úti.