Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Líkur á að 86% starfa breytist verulega

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay - Pexels
Miklar líkur eru á því að um þriðja hvert starf á Íslandi breytist verulega eða hverfi alveg á allra næstu árum, samkvæmt nýrri skýrslu nefndar forsætisráðherra um fjórðu iðnbyltinguna. Aðeins 14% starfa eru ólíkleg til þess að taka breytingum.

Skýrslan ber heitið Ísland og fjórða iðnbyltingin en niðurstöður hennar spá fyrir um hvernig aukin sjálfvirknivæðing og gervigreind muni hafa áhrif á vinnumarkaðinn. Samkvæmt skýrslunni er mjög líklegt að um 28% starfa verði óþörf eða breytist verulega, það eru rúmlega 50.000 störf hér á landi. Þá eru störf um 113.000 einstaklinga, eða tæp 60% starfa á Íslandi, miðlungs líkleg til þess að verða sjálfvirknivædd. Aðeins 14 % af þeim sem starfa á íslenskum vinnumarkaði eru í störfum þar sem litlar líkur eru á sjálfvirknivæðingu. Líkamleg störf og störf sem fela í sér miklar endurtekningar eru líklegust til að verða sjálfvirknivædd.

Undir öllum komið að bregðast við

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, nýsköpunar- og iðnarðarráðherra segir stefnumótun þegar hafna til þess að bregðast við þessum breytingum. „Við erum að móta nýsköpunarstefnu. Það er að reyna að sjá, horfa fram í þessar breytingar og hvernig við getum undirbúið bæði okkur sem stjórnvald og svo bara samfélagið. Stóru liðirnir þar eru auðvitað bara að fjárfesta í rannsóknum og þróun, fjárfesta í þekkingu, í menntakerfinu.“ 

Þórdís segir vinnumarkaðinn sjálfan einnig bera tölvuverða ábyrgð á því að bregðast við. „Það er að segja ef til dæmis stórt fyrirtæki sér fram á að stórhluti þess starfsfólk muni ekki vera í sömu störfum eftir einhver ár hvað getur fyrirtækið sjálft gert í því. Með því að bjóða upp á þá endurmenntun eða þróun í starfi eða hvaðeina annað.“ 

Er þetta eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af?

„Nei, ekki eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af en það er auðvitað bara undir okkur komið hvernig við tökum á breytingunum. Ætlum við með öldunni eða lenda undir henni? Og það er undir okkur öllum komið. Stjórnvöldum, atvinnulífinu og bara fólkinu sem býr í þessu landi.“ 

 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV