Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Líkur á ábyrgð krónprins á morði Khashoggi

19.06.2019 - 11:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna segir sannfærandi vísbendingar um að krónprins Sádi-Arabíu og fleiri háttsettir ráðamenn beri ábyrgð á morði blaðamannsins Jamal Khashoggi.

Khashoggi var myrtur af útsendurum Sádi-Arabíu á ræðismannsskrifstofu ríkisins í Istanbúl í Tyrklandi í október. Hann var Sádi-Arabi og hafði gagnrýnt stjórnvöld í heimalandi sínu, einkum krónprinsinn Mohammed bin Salman.

Agnes Callamard sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna segir að sönnunargögnin krefjist þess að sjálfstæð og alþjóðleg rannsókn á morðinu fari fram. Hún biðlar til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, að hefja rannsókn án tafar. Bandaríska alríkislögreglan eigi líka að rannsaka málið en Khashoggi var búsettur vestanhafs.

Sádi-Arabar sögðu í fyrstu að þeir hefðu enga vitneskju um afdrif Khashoggi en lýstu því síðar yfir að morðið hefði verið ekki framið að tilstuðlan krónprinsins.

Réttað hefur verið yfir 11 ónefndum sakborningum bak við luktar dyr í Sádi-Arabíu vegna morðsins. Dauðarefsingar er krafist yfir fimm þeirra. Saksóknarar hafa fríað krónprinsinn frá allri ábyrgð á morðinu.

Callamard segir réttarhöldin ekki uppfylla alþjóðlegar kröfur um sönnunarbyrði.