Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Líklegt að ríkið áfrýi nautalunda-dómi

19.11.2016 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Bæði núverandi og fyrrverandi landbúnaðarráðherrar eru ósáttir við dóm Héraðsdóms þar sem ríkinu er gert að greiða Ferskum kjötvörum skaðabætur. Líklegt er að ríkið áfrýi dómnum. 

Íslenska ríkið var í gær dæmt skaðabótaskylt gagnvart Ferskum kjötvörum. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að hindranir við innflutning á hráu kjöti samræmdust ekki EES- samningnum. Landbúnaðarráðherra er vonsvikinn með dóminn. 

„Fyrstu viðbrögð eru fyrst og fremst vonbrigði að héraðsdómur skuli kveða upp þennan dóm. Við höfum alltaf talið okkur vera í fullum rétti til þess að nota þessar reglur, maður veltir fyrir sér hvort að það sé verið að dæma eftir einhverjum Evrópureglum eða hvort sé verið að dæma eftir íslenskum lögum,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Hann segir að verið sé að skoða hver næstu skref verði í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Ekki sé búið að ákveða hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.  „Ég myndi halda það en það er ekki búið að ákveða neitt í því en mér fyndist það ekkert ólíklegt,“ segir Gunnar Bragi. 

Lengi hefur verið deilt um svokallaða frystiskyldu við innflutning á hráu kjöti. Frystiskyldan felur í sér að kjöt þarf að hafa verið í frysti í mánuð áður en það kemur til landsins. Deilt hefur verið um hvort Íslendingum sé heimilt að hafa þessa sérreglu sem byggir á rökum um verndun búfjárstofna og lýðheilsu. EFTA-dómstóllinn hefur sagt að svo sé ekki og dómur Héraðsdóms staðfestir það. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær segir að brot ríkisins á samningsskuldbindingum séu vísvitandi og alvarleg og hafi leitt til tjóns fyrir innflytjandann. Fyrrverandi landbúnaðarráðherra er ósammála dómnum og segir óþarft að fylgja honum. 

En ef þessu verður ekki fylgt, hefur það þá ekki afleiðingar í för með sér varðandi EES?  „Ef að EES-samningurinn stangast á við íslensk lög þá er bara hægt að breyta EES-samningnum. Hann er ekkert eilífðarmál. Það kemur aldrei til greina að einhver takmarkaður, afmarkaður viðskiptasamningur sem við gerum við önnur lönd, geti gengið hærra en íslensk lög,“ segir Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðarráðherra. 

 

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður