Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Líklegast að hraðvagnar aki um Borgarlínuna

22.03.2017 - 16:30
Mynd: cebucity / cebucity
Líklegast er að byggt verði upp hraðvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu frekar en léttlestarfkerfi. Kostnaðurinn við að koma upp hraðvagnakerfi á svokallaðri Borgarlínu er áætlaður um 50 til 60 milljarðar króna. Kostnaður við léttlestarkerfi er allt að þrisvar sinnum meiri. Framkvæmdir gætu hafist 2019

Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem nær til ársins 2040 er gert ráð fyrir að svokallaðri Borgarlína verði komið fyrir í skipulaginu. Í desember í fyrra undirrituðu sveitarfélögin samkomulag um að hefja undirbúning að lagningu Borgarlínunnar sem áætlað að verði um 40 kílómetrar. Tveir meginásar frá norðri til suðurs og frá austri til vestur. Endanleg lega hefur ekki verið ákveðin en ákvörðun ætti að liggja fyrir á miðju þessu ári. Spár bendi til þess að  fram til ársins 2040 muni íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölga um 40 prósent eða 70 þúsund. Eyjólfur Árni Rafnsson, verkefnisstjóri Borgarlínunnar, segir að  markmiðið með Borgarlínunni sé að efla almenningssamgöngukerfið sem er fyrir.

Meiningin er að ná því markmiði að æ fleiri noti þann samgöngumáta.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Eyjólfur Árni Rafnsson

Hraðvagnar frekar en léttlestir

Lykilatriðið í sambandi við Borgarlínuna er að  fólksfjölguninni verði mætt án þess að bílaumferð aukist í sama hlutfalli.  Bílaeign Íslendinga er með því mesta sem gerist eða um 700 bílar á hverja 1000 íbúa. 

Við undirbúning Borgarlínunnar hefur annað hvort verið talað um hraðvagna eða léttlestir. Enn hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvað verður fyrir valinu en hraðvagnakerfið er líklegra.

Það er verulega líklegt að hraðvagnar verði ofan á. Að sjálfsögðu skiptir þörfin máli, afkastagetan og svo að sjálfsögðu fjárfestingin sem er veruleg. Í huganum erum við farin að vinna í áttina að því að hér verði hraðvagnakerfi á sérakreinum.

Lestarkerfi mun dýrara

Verulegur munur er á kostnaði við að byggja eða leggja þessi kerfi. Gróflega er áætlað að  kostnaður við að koma upp hraðvagnakerfi er 50 til 60 milljarðar og þá er ekki tekin með kostnaður við kaup á vögnum. Léttlestarkerfi myndir kosta allt að 150 milljarða þegar miðað er við sambærilegar framkvæmdir í útlöndum.

Undirbúningur fyrir lagningu Borgarlínunar er hafinn. Ákveða verður hvar línann á liggja og þegar það er klárt þarf að breyta bæði svæðisskipulagi og aðalskipulagi. Á haustmánuðum verði hægt að auglýsa þessar breytingar.
 

Við erum að vinna eftir því að þetta verði auglýst og staðfest í upphafi næsta árs þá getur maður séð fyrir sér að hægt verði að fara af stað 2019.

Sveitarfélögin á Stavangersvæðinu í Noregi ákváðu að koma upp 50 kílómetra hraðvagnakerfi. Framkvæmdir hófust 2016 og áætlað er að þeim ljúka 2024. Miðað við það gæti framkvæmdum hér lokið um 2026. Sveitarfélögin munu skipta milli sín kostnaði við verkið en vonir standa til að ríkið komi að verkinu eins og það hefur gert bæði í Danmörku og í Noregi.

Hættum að fara í strætó

Það er ekki hægt að segja að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu eigi vinsældum að fagna. Tölurnar tala sínum máli. 1962 þegar fjöldi bifreiða á öllu landinu var 25 þúsund var fjöldi innstiga í strætisvagna í Reykjavík eða yfir 17 milljónir. Með innstigi er átt við fjöldann sem fór um borð í strætó en í mörgum tilfellum getur  getur verið um sama einstaklinginn að ræða sem ferðast með vögnunum. Þá var íbúafjöldinn í Reykjavík um 75 þúsund. 2015 var fjöldi innstiga hins vegar á öllu höfuðborgarsvæðinu 10,7 milljónir. Bílafjöldinn á Höfuðborgarsvæðinu um 178 þúsund og á öllu landinu yfir 325 þúsund. Og íbúafjöldinn um 190 þúsund.

Þetta segir manni að fólk fór bara úr vagnakerfinu yfir í einkabílinn.

Þétting byggðar

Með lagningu Borgarlínunnar þar sem hraðvagnar aka hindrunarlaust og tíðni ferða verður aukin til muna er jafn framt gert ráð fyrir byggð þéttist með fram línunni.

Hugsunin á bak við þéttingu byggðar er í grunninn sú að ná aukinni hagkvæmni rekstri sveitarfélaganna. Ef við horfum á þróunina undanfarna áratugi þá jókst svæði undir byggð um 130% á sama tíma sem íbúum fjölgaði um 50%. Það þýðir að hver skattgreiðandi er að standa straum af fleiri lengdarmetrum og fermetrum í innviðum okkar. Hagkvæmni í rekstri sveitarfélaga hlýtur að vera sú að reyna að nota sem minnst landsvæði.

En hvað eru hraðvagnar? Eru það bara venjulegir strætisvagnar sem aka eftir sér brautum og hafa forgang?

Við erum að tala um vagna sem eru ýmist með einum lið eða tveimur. Allt upp í að vera 24 metrar á lengd og geta flutt á annað hundrað farþega í einu.
 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV