Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Líklega aldrei erfiðara að eignast fyrstu eign

25.04.2016 - 18:21
Mynd með færslu
Í Hafnarfirði. Mynd úr safni.  Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Það hefur sjaldan eða aldrei verið erfiðara fyrir ungt fólk að eignast sína fyrstu eign. Viðar Ingason, hagfræðingur VR, telur að það verði jafnvel enn erfiðara á næstu tveimur til þremur árum.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ár. Í efnahagsyfirliti VR er tekið saman verð á fjölbýli í hlutfalli við laun fólks á aldrinum 25 til 34 ára. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 47 prósent frá 2010 til 2015. Á sama tíma hækkuðu útborguð heildarlaun þessa hóps um rétt rúm 26%. Þá hefur leiguverð hækkað töluvert umfram laun síðustu ár og aðgengi að lánsfé oft verið betra, samkvæmt samantekt VR. 

Viðar segir að við þessar aðstæður sé sífellt erfiðara fyrir ungt fólk að leggja til hliðar til þess að geta keypt fasteign. 

„Þegar við tökum saman þessa þrjá mælikvarða, hvernig verð á fjölbýli hefur hækkað, hvernig leiguverð hefur þróast og aðgengi að lánsfé að þá er okkar niðurstaða sú að það er umtalsvert erfiðara í dag fyrir þennan aldurshóp 25-34 ára að eignast sína fyrstu fasteign miðað við hvernig það var fyrir svona 15-20 árum síðan. Hvernig heldurðu að þetta eigi eftir að þróast á næstunni, verður þetta eitthvað auðveldara? Það sem við höfum séð núna undanfarið er að verð á fjölbýli hefur verið að hækka um svona átta og hálft til níu prósent að meðaltali á ári, sé það raunin er hætta á því að það muni bara verða erfiðara á næsta ári og þarnæsta,“ segir Viðar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr fréttum - RÚV

Viðar segir erfitt að spá fyrir um þróunina á næstu árum en miðar við allar spár bendi til þess að þetta verði mun erfiðara. Það hafi ekki verið byggt mikið af eignum sem ungt fólk er að sækjast eftir. 

„Eftirspurnin er stöðugt að aukast þannig að það eitt og sér ýtir verðinu upp þannig að það þyrfti að auka framboð á minni íbúðum. Svo þyrfti líka að taka svolítið til á leigumarkaði því það er líka að draga verulega úr framboði á leigueignum til ungs fólks. Meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna. Við erum að sjá að það eru æ fleiri íbúðir í leigu til ferðamanna heldur en í langtímaleigu til Íslendinga þannig að það hefur verið að keyra verulega upp leiguverð.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Hagfræðingar hafa ekki verið á einu máli um það hver raunveruleg staða ungra fasteignakaupenda sé og ýmsir á því að það sé jafnvel auðveldara nú en oft áður að kaupa fasteign. Í fyrri greiningum hefur verið stuðst við vísitölu fasteignaverð og launavísitölu Hagstofunnar. Vísitala fasteignaverðs gefur hins vegar ekki rétta mynd af almennu verði í fjölbýli því það hefur hækkað mun meira en sérbýli. 

VR tekur einnig saman hlutfall verð fjölbýlis utan miðbæjar og útborgaðra árslauna fólks á aldrinum 25-24 ára. Hlutfallið í fyrra var litlu lægra en það var 2005 en það var mesta bóluár sögunnar á fasteignamarkaði. Haldi svipuð verðþróun áfram gæti hlutfall verðs á fjölbýli utan miðbæjar og útborgaðra árslauna náð hámarki snemma á næsta ári. Samkvæmt yfirlitinu er því erfiðara fyrir ungt fólk að eignast sína fyrstu fasteign í dag, að bóluárunum undanskildum. 

Þá er einnig vikið að þensluskeiðinu en flestir hagvísar benda til þess að það sé hafið og raunar komið vel á veg. Atvinnuleysi hefur lækkað mikið, kaupmáttur launa nálægt hámarki og landsmannaframleiðsla á mann jöfn því sem hún var 2007. 

Mynd með færslu
Hótelturninn þykir ekki aðlaðandi miðað við önnur háhýsi við Skúlagötu Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Fjöldi byggingakrana er um margt ágætis mælikvarði á þenslu í efnahagslífinu og þeir fara ekki framhjá höfuðborgarbúum. Í fyrra voru 319 kranar skoðaðir af vinnueftirlitinu sem er bæst mesti fjöldi frá 1990. Það kemur kannski ekki á óvart að árið 2007 voru 364 kranar skoðaðir, 14 prósent fleiri en í fyrra. Í yfirlitinu segir að haldist sambandið milli byggingakranavísitölunnar og framleiðsluspennu geti myndast töluverð spenna í efnahagslífinu á þessu ári. 

Munurinn á stöðunni núna og 2007 er skuldsetning fyrirtækja. Skuldir fyrirtækja af landsframleiðslu voru 197 prósent 2007 en voru í fyrra 99 prósent. Fyrirtækin eru því betur búin undir áföll en þau voru fyrir hrun.