Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Líkfundur á búgarði einræðisherra

14.09.2019 - 06:57
Human remains found buried under a bathroom floor of a house are are seen in Ciudad del Este, Paraguay, Tuesday, Set. 10, 2019. Rogelio Goiburu, member of Paraguay's Truth and Justice Commission said on Monday that the human remains were found by squatters in what could be the country estate of Paraguay's late former dictator Alfredo Stroessner. (AP Photo/Ever Portillo)
 Mynd: AP
Eftir að líkamsleifar þriggja einstaklinga fundust í fyrrum híbýli paragvæska einræðisherrans Alfredo Stroessner heitins hófu yfirvöld leit í húsinu. Lögregla rannsakar jafnframt hvort leifarnar tilheyra einhverjum þeirra 423 sem voru drepin eða látin hverfa í valdatíð Stroessners.

Hústökufólk á fyrrum búgarði einræðisherrans fann þrjár höfuðkúpur og fleiri bein þegar þau grófu upp gólfið í baðherbergi hússins. Húsið er á 30 hektara landsvæði nærri borginni Ciudad del Este, við landamæri Paragvæ að Argentínu og Brasilíu. Það hefur verið í eyði árum saman.

Lögregla naut liðsinnis tuga manna sem grófu upp gólf í húsinu og nærliggjandi mannvirkjum í gær. AFP fréttastofan hefur eftir hústökufólkinu að fleiri bein hafi fundist við enda neðanjarðaganga við húsið. Rafael Esquivel, talsmaður hústökufólksins, segir göngin um 100 metra löng og þau endi í gryfju, þar sem fleiri bein er að finna að hans sögn. Líkamsleifar þeirra þriggja sem fundust fyrr í mánuðinum voru sendar til réttarmeinafræðings í Asuncion.

Stroessner var þaulsetnasti einræðisherra Suður-Ameríku á síðustu öld. Hann stýrði landinu harðri hendi frá 1954, þar til hann var hrakinn frá völdum árið 1989. Þá flýði hann til Brasilíu þar sem hann lést árið 2006. Samkvæmt sannleiksnefnd sem skipuð var til þess að rannsaka valdatíð Stroessner voru 423 teknir af lífi eða látnir hverfa. Nærri 19 þúsund voru pyntaðir og um 3.500 send í útlegð. Aðeins hafa fundist lík 37 þeirra sem voru myrtir í valdatíð einræðisherrans, og þar af hefur aðeins tekist að bera kennsl á fjögur þeirra. 

Biskupinn Mario Medina sá um opinbera rannsókn á mannshvörfum í valdatíð einræðisstjórnarinnar. Hann sagði við AFP fréttastofuna að Stroessner hafi átt fleiri hús víða um land. Þar hafi hann boðið vinum sínum í veislur og kynsvall með ungum konum og stúlkum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV