Lík umhverfisverndarsinna finnst í brunni

Mynd með færslu
 Mynd: Flickr
Lík mexíkóska umhverfisverndarsinnans Homero Gomez fannst ofan í brunni í Mexíkó eftir að hans hafði verið leitað í tvær vikur. Gomez sá um verndarsvæði fyrir fiðrildi í bænum Ocampo í Michoacan fylki. Fylkið er alræmt vegna fjölda glæpagengja sem berjast þar um yfirráð.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir yfirvöldum í Mexíkó að engin ummerki hafi verið um ofbeldi á líki Gomez. Hann fannst skammt frá þeim stað sem hann sást síðast. 

Réttindahópar óttuðust um líf Gomez vegna baráttu hans gegn skógarhöggi. Glæpagengin í fylkinu eiga stóran þátt í auknu skógarhöggi. Síðast sást til Gomez á fundi í þorpinu El Soldado 13. janúar. Degi síðar lýsti fjölskyldan hans eftir honum. Ættingjar hans greindu frá því að honum hafi verið hótað af skipulögðum glæpasamtökum. 

Yfir 200 sjálfboðaliðar tóku þátt í leitinni að Gomez. Í síðustu viku voru allir lögreglumenn í Ocampo og nágrannabænum Angangueo yfirheyrðir vegna hvarfsins. 

Gomez var ötull baráttumaður fyrir verndun kóngafiðrilda og heimkynna þeirra í furu- og þinsskógum Mexíkó. Verndarsvæðið sem hann hafði umsjón með opnaði í nóvember. Vonast var til þess að það gæti átt þátt í að draga úr skógarhöggi. Gomez bauð fylgjendum sínum á Twitter að heimsækja verndarsvæðið skömmu áður en hann hvarf. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi