Sun Zhengcai, sem eitt sinn var nefndur sem hugsanlegur arftaki Xi Jinping, forseta Kína, var í morgun dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir mútuþægni. Honum er gefið að sök að hafa þegið jafnvirði 2,7 milljarða króna í mútur.
Sun, sem er 54 ára, var um tíma æðsti maður kínverska Kommúnistaflokksins í borginni Chongqing og sat í framkvæmdastjórn flokksins. Sun tók við sem æðsti maður flokksins í Chongqing árið 2012 af Bo Xilai, sem árið 2013 var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir spillingu.