Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lífshættulegt að virða ekki lokanir

21.09.2014 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Almannavarnir ítreka að það geti reynst lífshættulegt að virða ekki lokanir við gosstöðvarnar í Holuhrauni. Sex nýir utanvegarslóðar eftir ferðafólk fundust við gosstöðvarnar í Holuhrauni í gær. Hræ fugla sem drepist hafa vegna mengunarinnar hafa fundist við jarðeldana.

Hættulegasti staður á Íslandi

Almannavarnir funduðu í morgun um stöðuna við gosstöðvarnar. Víðir Reynisson deildarstjóri segir lokanirnar á svæðinu ekki vera af ástæðulausu og brýnir fyrir almenningi að virða þær. „Þetta er hættulegasti staður á Íslandi og það verður að umgangast það með þeirri varúð og við verðum bara að biðja fólk um að hugsa aðeins áður en það fer að gera eitthvað,“ segir Víðir.

Búast við öskufalli svo ekki sjáist út um framrúðuna

Víðir segir að atburðarásin eigi sér fáar hliðstæður. Margt bendi til að gosið gæti skyndilega undir Dyngjujökli með tilheyrandi flóði og miklu öskufalli. Til marks um það séu til að mynda sigkatlar undir jöklinum. „Ef við gefum okkur það að við séum bara með frekar lítið gos þarna undir jöklinum þá getur öskufallið af því orðið mjög mikið í svona 20 - 25 kílómetra fjarlægð og töluvert alveg 20 kílómetra í viðbót,“ segir Víðir. Hann segir að öskufallið geti orðið það mikið að fólk sjái ekki út um framrúðuna á bílnum sínum.

Ógerningur að bjarga fjölda fólks

Víðir segir að vísindamenn og aðrir starfsmenn leggi sig í mikla hættu. Almannavarnir telja sig geta komið þeim 20 eða 30 manns sem eru að jafnaði við störf við gosstöðvarnar í burtu en ógerningur sé að koma miklu fleira fólki til bjargar ef eitthvað gerist.

Miðað er við mjög þröngan tímaramma í viðbragðsáætlunum sínum ef gos byrjar undir Dyngjujökli. Víðir segir að vísindamenn hafi jafnvel ekki nema mínútur til að forða sér frá flóði og hálfa til eina klukkustund áður en mjög dimmt verði af öskufalli. „Og við erum með ákveðin plön í kringum það hvernig við bregðumst við því ef af verður. En fyrir stærra svæði og erfiðara sem er kannski eins og vestur af gosstöðvunum þar sem við vitum að menn hafa verið að fara og vilja fara, það er bara svæði sem er nánast útilokað að keyra ef þú ert ekki með þokkalegt skyggni,“ segir Víðir.

Hann segir að gasið sem kemur frá jarðeldunum sé ekki síður hættulegt og dauðir fuglar hafi fundist í kringum gosstöðvarnar.