Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Lífríkið að hverfa

12.03.2013 - 08:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísbendingar eru um að lífríkið í Lagarfljóti sé að hverfa og fá úrræði eru til að snúa þróuninni við. Þetta kemur fram í drögum að skýrslu Landsvirkjunar sem kynnt hefur verið fulltrúum Fljótsdalshéraðs.

Fréttablaðið segir frá úttekt Landsvirkjunar á áhrifum Kárahnjúkavirkjunar á Lagarfljót í dag. Drög að skýrslunni hafa verið kynnt samskiptanefnd Fljótsdalshéraðs.

Gunnar Jónsson er formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. Hann segir í samtali við fréttastofu að vísbendingar séu um að lífríkið í Lagarfljóti sé að hverfa. „Þá er ég að tala um að fiski hefur fækkað mjög í Lagarfljóti og hann hefur vaxið minna og hann er horaður.“

Gunnar segir að ástæðurnar séu ljósar, aurburður í vatninu sem kemur frá Hálslóni sé miklu meiri en reiknað hafi verið með. Þetta þýðir að fiskurinn verður ætislaus og kemur einnig til með að hafa mikil áhrif á fuglalíf á svæðinu. 

Aðspurður hvort eitthvað hafi komið fram í minnisblaðinu eða máli Landsvirkjunar um hvort og hvernig sé hægt að grípa til mótvægisaðgerða til að snúa þróuninni við segir Gunnar: „Já, það kom fram að mótvægisaðgerðir, ég held ég megi segja að þær séu engar, ekki annað en að stoppa rennsli úr Hálslóni og ég held að enginn sé að tala um það.“

Gunnar segir að bæjarráð Fljótsdalshéraðs fjalli um málið á fundi á morgun.