Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lífræn framleiðsla með stuðningi ríkis

01.12.2016 - 16:21
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Stefán Gíslason flutti pistil í Samfélaginu á Rás 1 og skoðaði muninn á lífrænni vottunn og vistvænni. Hann bendir á að lífrænir framleiðendur í nágrannalöndum okkar njóti stuðnings frá stjórnvöldum. Því sé ekki fyrir að fara hér á landi.

Vistvænt og lífrænt 

Í eggjaumræðu síðustu daga hefur lífræna vottun nokkrum sinnum borið á góma, enda eðlilegt að fólk eigi erfitt með að greina á milli hugtakanna vistvænt og lífrænt. Eggin sem um ræðir voru sem sagt með svokallaða vistvæna vottun, sem er reyndar alls engin vottun þegar betur er að gáð, heldur bara merki sem framleiðandinn hefur ákveðið að líma á umbúðirnar, væntanlega til að gera vöruna söluvænlegri. Og þetta merki er meira að segja í eigu ríkisins, sem þó hefur ekki gert neinar athugasemdir við að hver sem er noti það eins og honum sýnist. Þetta merki á sér rætur í gamalli reglugerð sem búið er að nema úr gildi og hafði þar áður legið í kerfinu frá því um aldamót án þess að nokkurt eftirlit væri með framkvæmd hennar. Því verður ekki betur séð en að sagan öll sé eitt allsherjar klúður, og í þokkabót vissu allir, nánast allan tímann, að merkið væri marklaust, þ.e.a.s. allir sem voru í aðstöðu til að vita það. Neytendur voru hins vegar ekki í aðstöðu til þess, nema þá með því að kynna sér málið vandlega. Og þess vegna var í rauninni verið að plata neytendur.

Lífrænt er lögfest

Lífræn vottun er eitthvað allt annað. Í raun má segja að það eina sem þessi tvö kerfi eiga sameiginlegt sé að þau eru upphaflega byggð á reglugerðum sem stjórnvöld settu á sínum tíma. En jafnvel þar er stór munur á. Reglugerðin um vistvænu framleiðsluna var séríslenskt fyrirbæri og eingöngu til heimabrúks, en reglugerðin um lífræna landbúnaðarframleiðslu er upphaflega byggð á Evrópureglugerð frá árinu 1991 og hefur síðan verið uppfærð eftir því sem Evrópureglurnar hafa breyst. Sambærilegar reglur eru í gildi í öllum öðrum Evrópulöndum – og svipað má segja um fjöldamörg lönd. Í þessum reglum er tiltekin merking orðsins „lífrænt“ í raun fest í lög, þó að orðið hljómi auðvitað með mismunandi hætti eftir tungumálum. Lífræn vottun á Íslandi á sér þannig fullkomna samsvörun í orðum á borð við „organic“ í ensku, „økologisk“ í dönsku, „ekologiškas“ í litháísku og „biologisch“ í hollensku, svo dæmi séu tekin. Í Evrópureglugerðinni kemur fram að þessi tilteknu orð megi ekki nota neins staðar í löndum sambandsins á merkingum, í auglýsingum eða markaðssetningu fyrir landbúnaðarvörur sem ekki uppfylla skilyrði reglugerðarinnar um lífræna framleiðslu. Það er með öðrum orðum bannað að markaðssetja t.d. egg sem lífræn nema þau séu með lífræna vottun. Sama gildir auðvitað um grænmeti, kaffi, ávaxtasafa og hvað annað sem á uppruna sinn í ræktun, já, meira að segja snyrtivörur ef út í það er farið.

Ein vottunarstofa á Íslandi

Vottunarstofan Tún er eina vottunarstofan á Íslandi sem getur vottað lífrænt, en sambærilegar vottunarstofur er að finna í flestum löndum. Allar vottunarstofur í Evrópu styðjast við reglugerðir Evrópusambandsins og gera a.m.k. jafnstrangar kröfur og þar er tiltekið. Einhverjar þeirra hafa jafnvel valið að ganga lengra í einstökum atriðum. Vottunarstofur fyrir lífræna framleiðslu í löndum utan Evrópusambandsins styðjast við svipuð viðmið, þó að þær séu ekki byggðar á sömu reglugerðum. Þetta helgast m.a. af því að aðilar í lífrænni framleiðslu um allan heim hafa með sér víðtækt samstarf og samráð undir merkjum IFOAM, sem eru alþjóðasamtök lífrænna landbúnaðarhreyfinga. Allar vottunarstofurnar eru undir ströngu eftirliti faggildingaraðila sem ganga reglulega úr skugga um að eftirlit og önnur vinna þeirra sé í samræmi við reglugerðir um lífræna framleiðslu, kröfur IFOAM og staðalinn ISO 17065.

Munur á stuðningi stjórnvalda eftir löndum

Lífræn vottun er ekki bara einhver yfirlýsing viðkomandi framleiðanda um eigið ágæti, heldur felur hún í sér óháða staðfestingu á því að varan sem um ræðir eigi uppruna sinn í lífrænum landbúnaði. Þetta þýðir meðal annars að gengið hafi verið vel um landið, dýrin hafi fengið þokkalega meðhöndlun, sæmilegt pláss og útivist, að ekkert erfðabreytt efni hafi komið við sögu í ferlinu, að ekki hafi verið notaður tilbúinn áburður eða varnarefni við ræktunina, að ekki hafi verið notuð hættuleg efni við úrvinnslu afurða, og að rekjanleiki sé ávallt til staðar.

Þó að lífræna vottunin á Íslandi sé algjörlega sambærileg, og reyndar samræmd, við lífrænar vottanir í öðrum löndum, þá búa íslenskir framleiðendur lífrænna afurða við talsvert önnur skilyrði en kollegar þeirra í nágrannalöndunum. Það sem skilur þar á milli er ekki síst gríðarlegur munur á stuðningi stjórnvalda. Af skýrslu sem gefin var út af Byggðastofnun árið 2006, má t.d. ráða að þá hafi árleg framlög norska ríkisins til lífrænnar framleiðslu verið u.þ.b. 20 sinnum hærri en framlög íslenska ríkisins að teknu tilliti til íbúafjölda og miðað við gengi krónunnar á þeim tíma. Síðan eru reyndar liðin 10 ár, en við lauslega athugun verður ekki séð að staðan hafi breyst mikið.

Fjármagn fylgir ekki reglum

Í byrjun árs 2011 voru útbúnar nýjar verklagsreglur um aðlögunarstuðning íslenskra stjórnvalda vegna lífrænnar framleiðslu og áttu þessar reglur að gilda til allt að fimm ára. Þessar reglur voru „mun víðtækari en eldri viðmið og líkari því sem gerist í nágrannalöndunum, enda byggðar að talsverðu leyti á norskri fyrirmynd“, svo vitnað sé beint í skýrslu nefndar Alþingis um eflingu græns hagkerfis, sem var grunnurinn að einróma en lítið notaðri samþykkt Alþingis um grænt hagkerfi í mars 2012. Þessar annars ágætu verklagsreglur hafa hins vegar komið að litlu gagni, þar sem fjármagn fylgdi ekki með í pakkanum.

Lífræn eftirsótt

Nú er eðlilegt að spurt sé hvers vegna stjórnvöld ættu yfirleitt að styðja við lífrænan landbúnað. Því er þá til að svara að stjórnvöld hafa svo sem stutt töluvert við hvaða landbúnað sem vera skal – og líklega finnst mörgum eðlilegra að styðja við það sem vel er gert en við það sem er gert bara einhvern veginn án tillits til dýraverndar, hagsmuna neytenda eða kostnaðar fyrir komandi kynslóðir. Ástæðan fyrir því að stjórnvöld í nágrannalöndunum leggja svo mikið upp úr þessum stuðningi sem raun ber vitni er m.a. sú að lífræn framleiðsla er atvinnugrein sem vex miklu hraðar en flestar aðrar greinar í hagkerfum Vesturlanda. Með markvissum aðgerðum til margra ára hafa Danir t.d. náð að verða eins konar heimsmeistarar í lífrænni framleiðslu. Á árinu 2014 fluttu Danir út lífrænt vottaðar vörur fyrir 231 milljón evra, eða um 28 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi. Og þessi tala hækkar um rúm 10% á ári samkvæmt upplýsingum netmiðilsins Organic Market Info. Eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum fer ört vaxandi, að því er virðist um allan heim, og þá ekki síst í vaxandi hagkerfum á borð við það kínverska. Ísland er ekkert eyland í þessu samhengi og ekkert sem bendir til annars en að eftirspurn fari ört vaxandi hér líka, bæði meðal íslenskra neytenda og ferðamanna sem sækja landið heim. Þetta hefur í för með sér að ný störf skapast við lífræna framleiðslu. Það hvort þessi störf verði til innanlands eða utan veltur m.a. á stefnumótun stjórnvalda, svo enn sé vitnað í skýrsluna um græna hagkerfið.

Lífræn vottun er ekki bara óháð staðfesting á því að viðkomandi vara og framleiðsla hennar standist strangar kröfur, sem eru í öllum aðalatriðum sambærilegar um allan heim, heldur felur hún í sér margvísleg tækifæri í atvinnuuppbyggingu og styrkingu hagkerfisins. Íslensk stjórnvöld geta hins vegar valið um það að fylgja fordæmi Dana og annarra nágrannalanda í þessum efnum eða sitja með hendur í skauti og halda í þokkabót áfram að láta það afskiptalaust að hver sem er noti eitthvert vel útlítandi merki í eigu stjórnvalda eftirlitslaust á hvað sem er, neytendum til armæðu og tjóns.

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn