„Lífið ýtti mér út í það að vera söngkona“

Mynd: Ragnar Santos / RÚV

„Lífið ýtti mér út í það að vera söngkona“

19.02.2020 - 15:49

Höfundar

Hljómsveitin Heiða Björg & the Kaos mætti í Stúdíó 12 ásamt frönsku hljómsveitinni The Archibald.

Hljómsveitin Heiða Björg & the Kaos var gestur Óla Palla í Stúdíói 12. Hljómsveitin kemur frá Frakklandi en Heiða Björg hefur verið búsett í þar og í Marokkó síðustu 16 árin. 

Tónlist Heiðu Bjargar & the Kaos er að miklu leyti innblásin af dvöl Heiðu í Marokkó. Hún segist sjálf hafa búið þar í ákveðnu lúxusumhverfi en þó ávallt tengt betur við fátækari hluta landsins. Þar varð hún fyrir lífsreynslu sem hefur haft mikil áhrif á hana og orðið innblástur að mörgum verkefnum og lögum. 

„Ég tók að mér unga stelpu sem var tvítug sem henti sér út úr bíl á 80km hraða til að koma í veg fyrir nauðgun. Þar sá maður hvað einkavæðingin var orðin sterk en það tók engin spítali á móti henni. Hún fór á sjö spítala um nóttina en hún var öll brotin.”

Spítalarnir sögðust hinsvegar allir vera fullir og gátu ekki tekið á móti henni, ástæðan var sú að hún átti ekki pening og gat því ekki borgað undir borðið. Spítalarnir hafi því sent hana heim til að deyja að sögn Heiðu. 

„Ég tek hana að mér og frá þessu tímabili, sem var mjög snemma í Marokkó, fer ég algjörlega að kafa í líf þeirra sem fæðast inn í fátæktarheiminn og komast ekki útúr honum.”

Heiða segir að stúlkan hafi lifað af en sé algjörlega heilaþveginn af því að giftast. „Það er ekkert annað í framtíðinni sem bíður hennar annað en að giftast eins og hún sér þetta fyrir sér, það er búið að heilaþvo konur þarna.“

Lagið Blood Mother fjalla einmitt um þann veruleika. 

Mynd: RÚV / RÚV
Heiða Björg & the Kaos - Blood Mother

Aðspurð segist Heiða Björg aldrei hafa ætlað sér að vera söngkona, klarínettið hafi alltaf dugað. 

„Lífið ýtti mér út í það að vera söngkona. Það tók mig mörg ár að segja að ég væri söngkona,” segir Heiða Björg.

Um framtíð sveitarinnar segist Heiða Björg ætla að halda áfram að blanda saman stílum og tungumálum í tónlistarsköpun sinni. Í sumum lögum verður einungis spilað á hljóðfæri en í öðrum mun hún syngja.

Dear Friend er lag sem ferðast á milli stíla. Þar fjallar Heiða um hver hún er, hvert hún ætlar í lífinu og hvort hún viti hvað hún vill fá í lífinu. Hún segir lagið byrja rólega en svo færist fjör í leikana.

Mynd: RÚV / RÚV
Heiða Björg & the Kaos - Dear Friend

Heiða Björg tók þó ekki einungis hljómsveit sína The Kaos með í Stúdíó 12 heldur var þar einnig önnur hljómsveit mætt, það var franska sveitin The Archibald sem hefur séð um að hita upp á tónleikum fyrir Heiðu Björg & the Kaos. 

Mynd: RÚV / RÚV
The Archibald - Inspiration