Lífið er óútreiknanlegt

Mynd: Angústúra / RÚV

Lífið er óútreiknanlegt

15.03.2020 - 09:53

Höfundar

Egill spámaður, barnabók Lani Yamamoto, er listilega vel gerð saga um sérstakan dreng, segir Halla Þórlaug Óskarsdóttir. „Lani Yamamoto er snillingur í að finna nýja leiðir til að leiða lesandann í gegnum tímann.“

Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar:

Fyrir jól kom út bók Lani Yamamoto, um Egil spámann. Ég verð að viðurkenna að ég varð sjálf strax mjög spennt þegar ég sá kápuna því ég mundi vel eftir síðustu bók höfundar – í sama stíl – sem kom út sex árum fyrr. Sú fjallaði um Stínu stórusæng, en það var fyrsta bók Yamamoto sem hún skrifaði á íslensku. Ég man að mér fannst hún frumleg, djúp, heillandi og einhvern veginn allt öðruvísi en þær barnabækur sem ég hafði komist í kynni við þá.

Kápa Stínu stórusængur var prýdd mynstri sem vísaði í prjónaskap, sterk vísbending um efni bókarinnar. Kápa Egils spámanns gefur líka vísbendingu um innihald bókarinnar, hún er þakin tölustöfum, en maður þarf að vera dálítið sjóaður til að átta sig á vísbendingunni strax. Ég kem að því síðar. 

Egill spámaður er ungur drengur sem vill helst ekki tala. Það er óljóst hver ástæðan er, en það er þó sérstaklega tekið fram að hann sé ekki feiminn. Hann upplifir bara að það sem hann hugsar komi einhvern veginn vitlaust út úr honum. Eða hvað. Vitlaust. Eftir lestur bókarinnar setur lesandinn einmitt spurningamerki við nákvæmlega þetta orð.

Bókin segir frá einu dæmi, úr stærðfræðitíma, þar sem Egill er beðinn að svara – og hann veit hvaða svar kennarinn vill fá. Þegar hann opnar munninn kemur samt eitthvað allt annað svar út. En hvaða svar er rétt?

Lani Yamamoto er fædd í Bandaríkjunum og hefur lært sálfræði, trúarbragðafræði og ritlist. Auk bókanna um Egil spámann og Stínu stórusæng hefur hún skrifað og teiknað heimspekilegar barnabækur um Albert, sem líklega er nefndur eftir eðlisfræðingnum fluggáfaða.

Egill spámaður er kannski dálítið svipuð týpa og Albert, hann setur spurningamerki við umheiminn – eða kannski hinn félagslega heim sem stundum er dálítið kassalaga – hann vill skilja hlutina út frá eigin forsendum – eða skilja forsendur heimsins kannski öllu fremur.

Ég fór í huganum að bera saman fyrrnefndar bækur eftir Yamamoto. Allar virðast í fyrstu fremur einfaldar frásagnir af einu barni, en við nánari athugun eru þær djúpar og heimspekilegar. Segja má að bæði Albert og Egill spámaður velti heiminum fyrir sér á gagnrýninn máta, bæði út frá því sem þeim er sagt – en líka eigin tilfinningum. Þannig eru þeirra vangaveltur byggðar á samtali við umheiminn – eða samfélagið öllu heldur. Þeir horfa út á við.

Stína stórasæng horfir meira inn á við. Hún er hrædd við að verða kalt. Það eru auðvitað ytri áhrif sem valda því, en hún verst þeim með því að loka sig inni og klæða sig betur. Hún er í raun að einangra sig frá umheiminum því hún óttast kuldann.

Persónur í bókum Yamamoto spyrja stórra spurninga og finna svörin með eigin leiðum. Stundum eru spurningarnar orðaðar, stundum eru þær óljósar. Tilfinningin hjá fullorðnum lesanda er sú að eitthvað miklu meira búi að baki – að frásögnin geti opnað glugga inn í eitthvern allt annan heim.

Börn og fullorðnir

Ég er búin að lesa bókina nokkrum sinnum, bæði sjálf í hljóði, en líka upphátt fyrir tveggja ára dóttur mína. Það kom mér dálítið á óvart hversu hrifin hún var af henni og að hún hélt henni gjörsamlega allan tímann. Í hvert skipti hef ég svo tekið eftir einhverju nýju, fyllst innblástri eða horfið inn í óvæntar vangaveltur.

Bókin er þannig sannarlega hugsuð fyrir fullorðna líka, en talandi um fullorðna – þá eru þeir að mestu fjarverandi í bókum Yamamoto. Í bókunum um Albert koma fullorðnir við sögu en þeir eru andlitslausir. Í Stínu stórusæng eru þeir fjarri góðu gamni, maður fær á tilfinninguna að hún búi bara ein. Í sögunni um Egil spámann koma reyndar tveir fullorðnir við sögu. Annars vegar kennslukona, sem er myndgerð sem skuggamynd – og hins vegar kaupmaðurinn í Kjötborg, sem ekki segir neitt, en Lani Yamamoto ljáir honum vinalegt andlit. Hann er líka einhvern veginn jafningi Egils. Hann mætir honum af virðingu, þeir eiga sinn heim saman, þar sem engin krafa er gerð um óþarfa samskipti. Egill kaupir sama sælgætið vikulega og kaupmaðurinn kann innkaupalistann utan að. Egill þarf ekki að segja orð.

Samspil mynda og texta

Lani Yamamoto er listamaður, bækur hennar eru listaverk. Jafnvægi mynda og texta er gott og einhvern veginn mjög skýrt. Textinn er knappur, en vel sniðinn. Það virðist sem hvert orð sé valið af kostgæfni og sömuleiðis er flæði textans úthugsað. Hann hefur sterkt ljóðrænt yfirbragð, takturinn skýr þótt hann sé breytilegur.

Yamamoto fjölyrðir ekki um hlutina, en vegur upp á móti með myndunum. Þó má ekki skilja það sem svo að myndirnar séu flóknar eða fjölskrúðugar, heldur eru þær líka úthugsaðar í einfaldleika sínum. Inn á milli koma svo myndir þar sem smáatriði fá að njóta sín.

Það kemur ekki á óvart, að Lani Yamamoto sé tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar í flokki myndlýsinga í barnabókum.

Tíminn og landslagið í bókum

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að ég nýt þess betur að lesa bækur úr pappír, en rafbækur. Ein þeirra er landslagið. Eða kannski tíminn.

Ég á við hvernig tíminn líður í gegnum bókina þegar maður flettir. Hvernig maður getur flett aftur að ákveðnum atburði í sögunni, því maður hefur tilfinningu fyrir staðsetningunni. 

Lani Yamamoto er snillingur í að finna nýja leiðir til að leiða lesandann í gegnum tímann. Til þess notar hún til dæmis liti. Það kvöldar, lesandinn flettir á næstu opnu, þar má sjá ský og ljósbláan himinn.

Sögutími Egils spámanns eru tveir dagar. Stærðfræðitíminn síðasta föstudag og svo allur næsti dagur, beinlínis frá morgni til kvölds. Á milli þessara tveggja daga er textalaus opna. Alls ekki tóm þó. Önnur blaðsíðan er dökkblá með hvítum stjörnum. Hin er blá. Við þekkjum þennan bláa lit. Þetta er nýr dagur. Nótt og dagrenning. Sitthvor blaðsíðan.

Og næsta opna hefst á orðunum: „Daginn eftir.“ Þetta er svo listilega gert. Við ákveðum sjálf hvað við dveljum lengi í nóttinni - eða þessum umskiptum. Þetta er til dæmis glæný lestrarupplifun fyrir okkur mæðgurnar. Dóttir mín nýtur þess að staldra við og virða fyrir sér þessa opnu. Stórmerkilegt.

Náttúran og lögmálin

Eins og ég minntist á í upphafi prýðir kápu bókarinnar fjöldinn allan af tölustöfum. Í fljótu bragði má hugsa sér að Egill spámaður sé mikill stærðfræðingur en það er hann reyndar alls ekki. Hann er alls ekki hrifin af þeirri grein vísindanna. Töflurnar sem kápan skartar eru tímatöflur og vísa til sjávarfalla, sólarupprása og sólsetra.

Lífið lætur ekki alltaf að stjórn. Raunar sjaldnast. Að reyna að stýra lífinu getur auðveldlega valdið kvíða og vanlíðan. Það er kannski gildra sem hinir fullorðnu þekkja betur en börn.

En við getum samt reitt okkur á náttúruna og við höfum vísindin til að skilja hana. Við vitum ýmislegt fyrir víst, við þekkjum sjávarföllin og við vitum að sólin rís og sest. Við vitum líka að þetta gerist ekki alltaf á sama tíma – en þó er hægt að reikna út nákvæmlega hvenær þetta á sér stað. Út frá þeim útreikningum eru gerð almanök eins og það sem Egill spámaður hefur ætíð með sér og prýða kápu bókarinnar.

Egill reiðir sig líka á stóra samhengið – það er að segja samspil himinhnattanna. Tunglið stýrir jú sjávarföllunum, í samtali við jörðina, og svo snýst jörðin um sjálfa sig og ferðast hringinn í kringum sólina og þetta ákveður hina breytilegu sólarupprás og sólsetur.

Það er freistandi að ætla að Egill sé á einhverfurófinu, kannski er hann það. Kannski ekki. Það er ómögulegt að segja. En Egill spámaður er alls ekki hrifinn af stærðfræðitímum, stærðfræðidæmum þar sem aðeins einn svarmöguleiki er réttur.

Stærðfræðidæmið gerir ekki ráð fyrir óvæntu uppákomum lífsins. Hvernig er hægt að vera viss um hve marga sælgætismola þú átt eftir af sex, ef þú borðar tvo og gefur vini þínum helminginn af restinni… það er auðvitað ómögulegt að segja. Það er svo ótal margt sem getur komið upp á!

Rétta svarið í heimi stærðfræðinnar eru tveir. En Egill spámaður spáir óvart fyrir um raunverulegt svar við þessari spurningu. „Enginn!“ hrópar hann, eftir umhugsunarfrest, þegar kennarinn spyr hann … þrátt fyrir að hann vissi nákvæmlega hvert „rétta“ svarið væri. Daginn eftir rætist þessi spádómur, þegar hann hittir óvænt nýju stelpuna í bekknum á vanabundinni laugardagsgöngu sinni um hverfið – þegar hann var einmitt búinn að borða tvo mola.

Hann reynir fyrst að forðast hana. Áætlar gönguhraða hennar, reynir að taka fram úr henni eða hleypa henni fram úr, en hún hægir og hraðar á sér svo það tekst ekki. Og það sem kannski kemur honum mest á óvart er að þau skemmta sér vel saman. Er hún kannski nýr vinur?

Í fjörunni missir Egill þrjá mola í sjóinn. Þá á hann ekki lengur þessa mola. Samt gaf hann þá hvorki né borðaði sjálfur. Svo deilir hann helmingnum af restinni með vini. Þá á hann engan mola eftir. Alveg eins og hann hafði spáð fyrir um.  Því hvað er sannleikur? Það sem var satt í gær er kannski fásinna í dag. Allt fer eftir forsendum og óvæntir atburðir geta haft afgerandi áhrif á framvindu mála.

Það er kannski sú áminning sem eftir situr eftir lestur  bókarinnar um Egil spámann, eftir Lani Yamamoto. Alveg sama hversu vel við undirbúum okkur, hversu nákvæmlega við reiknum dæmið, þá getur raunveruleikinn – lífið sjálft – komið okkur í opna skjöldu. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Tímalaus saga um unglinga með nördalegt áhugamál

Bókmenntir

Ungmennabók sem talar beint inn í samtímann

Bókmenntir

Skrifar af skáldlegri hófsemi um stórar spurningar