Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Lífið er núna“

11.08.2017 - 20:42
Mynd: RÚV / RÚV
„Ég er laus við meinið, krabbameinið. Helvítis meinið er farið. Þangað til það kemur aftur, hvenær sem það verður, sem verður vonandi aldrei,“ segir Stefán Karl Stefánsson um líf sitt eftir tvær skurðaðgerðir við lifrarkrabbameini. „Lífið er núna. Það er eiginlega kraftaverki líkast að maður sé hérna ennþá.“

Stefán Karl lýsti því í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 hvernig hvert meinið á fætur öðru hefði fundist í lifrinni. Þar á meðal eitt stórt sem uppgötvaðist í sjálfri aðgerðinni. Hluti lifrarinnar var tekinn en hún endurnýjar sig. Á þeim tólf mánuðum sem eru liðnir síðan Stefán Karl greindist með krabbamein hefur hann verið skorinn tvisvar upp. „Það er auðvitað rosalegt áfall. Maður dofnar bara upp til að byrja með.“ Hann segir skrýtið að vera í þessari stöðu þar sem einn af hverjum hundrað þúsund fái þetta krabbamein. „Auðvitað fæ ég það. Ég er one of a kind.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Föst í að fylgjast með náunganum

Krabbameinið varð til þess að hann endurskoðaði líf sitt og hvað hann vildi gera. „Flestir eru farnir á einhverjum fimm árum. Allt í einu þarf maður að fara að endurraða, endurskipuleggja líf sitt. Það sem gerist þegar maður fer að átta sig og sjokkið fer að dvína, og maður girðir sig í brók - maður fer að flokka hvað skiptir máli og hvað skiptir ekki máli.“

Breytingarnar eru margvíslegar. Til dæmis hafi hann hætt að taka þátt í umræðu um stjórnmál og annarri neikvæðri umræðu, sem áður hafi tekið alltof mikinn tíma. Hann hefur áhyggjur af slíku. „Ég held að við höfum bara of lítið að gera. Við erum að hanga á Facebook og lesa feed-ið hjá öðrum. Við erum „stalkerar“, við erum að „stalka“ líf hvers annars allan daginn og hafa skoðanir á því. Þetta er svolítið eins og að standa við gluggann: Sjá hvernig hann er að mála húsið, hann er að mála það grænt, aldrei myndi ég mála grænt hjá mér. Nema nú ertu kominn með vettvang og skrifar honum á Facebook.“ Hann segir að fólk þurfi ekki að veikjast til að sjá hversu sjúkt þetta viðhorf sé en veikindin verði til þess að hann líti lífið öðrum augum en áður.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Dauðinn ofboðslega ómerkilegur

„Margir spyrja hvort ég sé hræddur við að deyja. Þetta er eins og við Steinunn höfum oft rætt um. Dauðinn er svo ofboðslega ómerkilegt fyrirbæri, algjörlega ómerkilegur, meðan lífið er svo merkilegt og stórkostlegt.“

Stefán Karl segir að fólk eigi að brosa og vera þakklátt fyrir að vera til. Það sé ekki svo sjálfsagt. Þess vegna eigi fólk ekki að gráta það að eiga kannski stutt eftir heldur njóta þess að vera til. „Verum ekki að gráta og syngja í systurnar ef og hefði, hættum að líta í baksýnisspegilinn og horfum áfram veginn því það læknar öll sár. Þegar ég vaknaði eftir mína fyrstu  aðgerð, sem er einhver alvarlegasta og mesta aðgerð sem framkvæmd er á mannslíkamanum horfðu hjúkrunarkonurnar á mig og sögðu: Nú læknar þú þig sjálfur Stefán. Það er einhver mesti lærdómur sem ég hef gengið í gegnum á ævinni.“ Þá hafi læknavísindin verið búin með sitt og komið að honum að passa upp á líkama sinn og sálarlíf.

Samgleðst yfir því sem er ekki orðið

„Einu skiptin sem ég fæ tár í auga er þegar ég hugsa til þess sem ég get mögulega misst af. Ég get ekki saknað einhvers sem ekki er orðið. En mér finnst til dæmis tilhugsunin um að geta ekki haldið á barnabörnunum mínum sorgleg. Þá verð ég dapur í alvörunni. Ég hugsanlega get ekki leitt dætur mínar að altarinu þegar þær gifta sig en ég veit að þær eru í góðum höndum og þau öll. Þetta eru einu skiptin þegar ég verð dapur, en stundum brosi ég líka við tilhugsunina um að þetta mun gerast fyrir þau, vonandi og vonandi ná þau, eins og ég, að eignast börn því það er svo stórkostlegt að verða foreldri. Þannig að ég brosi líka yfir og samgleðst yfir einhverju sem er ekki orðið. Við Steinunn tölum mjög opinskátt um þetta við börnin.“

Stefán Karl segir að hann og Steinunn hafi lagt áherslu á að börnin væru hreinskilin um tilfinningar sínar ef þau vildu ekki ræða þessi mál þegar fólk fitjaði upp á þeim.

Hjólar 20 kílómetra á dag

„Ég hef jafnað mig mjög hratt og örugglega með því að standa upp og hreyfa mig. Hreyfing skiptir öllu máli en maður verður auðvitað að fara hægt af stað,“ sagði Stefán Karl sem reynir að hjóla að lágmarki 20 kílómetra á dag. Hann var duglegur að lyfta áður en hann veiktist. Þá var markmiðið að byggja upp vöðva en nú er hann orðinn öllu léttari.

„Ég lít ekki svo á að ég sé búinn að fá einhvern dauðadóm þó ég viti að allt umfram tvö ár í mínu lífi er kraftaverk. Ég lít þannig á að við eigum að búa til minningar,“ segir Stefán Karl. Hann segir að fólk verði að vanda valið um hvað það geri með börnunum sínum.

Skrifar uppistand um krabbamein

Stefán Karl sagði frá því í Síðdegisútvarpinu að hann væri að skrifa sitt fyrsta uppistand. „Þetta stand-up fjallar um krabbamein, sem er fyndið.“ Hann sagðist ekki gera þetta einn heldur fengi hann hjálp Ara Eldjárns uppistandara við höfundarverkið. „Við ætlum að byrja tilraunir í október og svo ætla ég að frumsýna þetta fljótlega eftir áramót. Ég ætla að gera smá grín að þessu.“ Þar á meðal er maturinn. „Þetta er Michelin-matur, nema hvað kokkurinn keyrði yfir hann á Michelin-hjólbörðum.“

Það er mikilvægt að geta hlegið að veikindunum. „Hlátur lengir ekki endilega lífið en hann gerir það léttbærara.“ Stefán Karl nefndi að hann hefði þurft að læra að prumpa upp á nýtt eftir aðgerðina. Hann hefði stundum verið með lækna og hjúkrunarkonur standandi yfir sér spyrjandi um það hvenær hann leysti síðast vind og hvernig. „Það er fullt af hlutum í kringum þetta sem eru drepfyndnir.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV