Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lifi kaldhæðnin!

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Lifi kaldhæðnin!

22.01.2020 - 14:40

Höfundar

Leiksýningin Helgi Þór rofnar, eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar, er bráðfyndin og skemmtileg, að mati Maríu Kristjánsdóttur gagnrýnanda.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Það var gleðilegt fyrir íslenskt leikhús þegar Tyrfingur Tyrfingsson ákvað að helga sig leikritaskrifum og enn gleðilegra að verk hans skuli vera sýnd. Hann hlustar vel á íslenskt samfélag einkum á þá sem fáir hlusta á. Hann er djarfur, óhræddur við að ögra áhorfendum með sprúðlandi hugmyndaflugi og stundum ruddalegu orðfæri og það sem er ekki minnst um vert: Hann er skemmtilega kaldhæðinn. Í nýjasta verki hans Helgi Þór rofnar sem frumsýnt var á föstudaginn í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Stefáns Jónssonar er ríkjandi svartur húmor, alveg kolsvartur súrrealískur húmor.

Í verkinu segir frá feðgunum Helga Þór og Jóni, sem reka útfararstofu, bakaranum vini Helga, og Katrínu, stúlku sem kemur inn á útfararstofuna til að kveðja glæpamanninn föður sinn en Helgi er þar að snyrta lík hans. Jón, faðir Helga, er því miður sprelllifandi og brátt birtist hann hjá þeim tveimur og finnur sig knúinn til að segja fyrir um þrjá hræðilega atburði. Í framvindunni rætast síðan allir spádómarnir. Það er eiginlega glæpsamlegt að lýsa henni frekar. Því allt þarf að koma áhorfanda á óvart. En segja má að athafnir ráði vart atburðarás fremur að „talandi höfuð“ verði ógæfunni að bráð burðist þau við að ætla að gera eitthvað.

Gretar Reynisson býr til leikmynd skylda í grunninn þeirri sem hann hannaði fyrir „Hver er hræddur við Virginíu Wolf“. Snjóhvítur flísalagður kassi sem nær yfir alla breidd sviðsins og eftir er rönd af fjórða veggnum neðst sem nýta má til að sitja og standa á. Í bakvegg fyrir miðju ferköntuð eining sem ýmist er notuð sem tjald fyrir vídjómynd eða ýta má inn og fram. Þar inni staðsetur hann heimili Katrínar, en hvort til sinnar hliðar fá útfararstofan og bakaríið samviskusamlega sitt pláss. Það verður stundum óþarflega þröngt á útfararstofunni, erfitt að ná skýrri sögn í sambönd persóna.

Stefán Jónsson leikstjóri velur þá leið að verkinu sem við köllum oft raunsæja en er natúralísk. Hann sér í því hnyttinn harmleik, harmleik ungs fólks sem fær ekki að njóta sín, njótast vegna syndugra eldri kynslóða. Enda ýmis minni í gríska harmleiki í textanum. Hilmar Guðjónsson leikur titilhlutverkið Helga Þór. Hann er alltof oft settur í keimlík gamanhlutverk sem er engum fastráðnum leikara samboðið. En hér gerir hann vel. Hina óákveðnu bældu persónu, ekki örugga um kynhneigð sína, sem glímir við að vera eða ekki vera, túlkar hann fallega og skilar líka öllum bröndurum sem velta úr honum nánast óaðfinnanlega í alvöru sinni. Jón faðir hans, útsmoginn refur af hippakynslóðinni, leikinn af Bergi Þór Ingólfssyni varð náttúrulega líka oft ótrúlega fyndinn en setja má spurningarmerki við að hann sýni vald sitt yfir syninum á svona háværan og opinskáan hátt, þessi mikli maður orðsins. Þuríður Blær Jóhannsdóttir á mjög góða spretti sem hin munaðarlausa og munaðarfulla Katrín í leit að ást en gleypir stundum hreinlega setningarnar sem velta upp úr henni og af hverju er henni troðið í svona hallærislegan búning? Því annars styrkja búningar Stefaníu Adolfsdóttur ágætlega persónusköpun. Hjörtur Jóhann Jónsson túlkar bakarann sem gróft líkamsræktartröll sem undir sjálfumgleði felur viðkvæmari strengi. Það gerir hann vel.

Í heildina er sýningin bráðfyndin og skemmtileg, að minnsta kosti fyrir þá sem eru ekki viðkvæmir. Gervi, lík, hryllingseffektar, tónlist vel úr garði gerð. En ég spyr mig þó hvort raunsæið kunni ekki stundum að vera á kostnað hins súrrealíska. Hvort ekki hefði mátt leika sér meira með hryllinginn, tvíræðnin mátt vera meiri. Og hvernig á að skilja eftirmálann sem reyndar er forleikur og birtist sem leikin vídjómynd af fyrstu kynnum unga fólksins? Það er erfitt að ímynda sér að þarna í blálokin hafi einmitt þetta leikskáld, orðið harmi þrungið, sett sig í stellingar og áminnt okkur í fullri alvöru: Mórallinn er krakkar mínir: Aldrei að trúa því sem ykkur er sagt.

Miklu auðveldara er að ímynda sér að eftir að hafa sett fram þann heilaga sannleik hafi Tyrfingur, sem var þá búinn í heila kvöldstund að hella yfir okkur sínu súrrealíska flóði af orðum, rekið upp hrossahlátur og hugsað...Já, hvað hefði hann hugsað?