Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lífeyrissjóðir tengdari skuggabönkum en áður

Mynd með færslu
 Mynd:
Skuggabankakerfið, starfsemi fjármálafyrirtækja sem haga sér eins og bankar en eru það ekki, er í örum vexti hér á landi, nemur 10% alls kerfisins. Lífeyrissjóðir eiga mikið undirþessu kerfi, einkum svokölluðum samlagshlutafélögum sem mörg hver sýsla með fasteignir; svo sem hótel, skrifstofubyggingar og verslunarhúsnæði. Skuldabréf Íbúðalánasjóðs hafa minna vægi í eignasafni lífeyrissjóðanna en áður en á móti hafa þeir keypt meira af mun áhættusamari skuldabréfum með undirliggjandi fasteignaveð.

Í nýjasta fjármálastöðugleikariti Seðlabankans er fjallað um aukið umfang Skuggabankakerfisins og tengsl þess við lífeyrissjóðina. Er þessi aukna áhætta og aukin tengsl við fasteignamarkaðinn áhyggjuefni? Er eitthvað skuggalegt við aukin umsvif skuggabankakerfisins og þátttöku lífeyrissjóðanna í því? Verður afnám gjaldeyrishafta til þess að lífeyrissjóðirnir dreifa áhættunni víðar? Er það æskilegt? Eggert Þ. Þórarinsson er forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Seðlabanka Íslands. 

„Í sögulegu samhengi hafa lífeyrissjóðirnir alltaf verið stórir fjárfestar á fasteignamarkaði. Þeir hafa verið stórir eigendur, stærstu eigendur að skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði og hafa verið í beinum lánveitingum. Hlutfall beinna lánveitinga af heildareignum þeirra er núna nálægt því sem hefur verið síðastliðin ár en það hefur dregið úr eign lífeyrissjóðanna sem hlutfall af heildareignum í skuldabréfum Íbúðalánasjóðs þar sem sjóðurinn hefur ekkert gefið út frá árinu 2012. Þá hafa þeir farið í önnur verðbréf með undirliggjandi fasteignaveðum. Það kunnu að vera áhættusamari verðbréf en skuldabréf Íbúðalánasjóðs en það þarf ekki að vera í öllum tilfellum."

Í ritinu er talað um að sjóðirnir kaupi nú „mun áhættusamari skuldabréf með undirliggjandi fasteignaveði." Þetta hljómar svolítið alvarlega en þú vilt ekki gera mikið úr þessu? 

„Þetta er náttúrulega, enn sem komið er eru fjárhæðirnar ekki háar en það má ekki gleyma því að þeir eru að færa sig úr skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði sem er nánast ígildi þess að skuldabréfin séu ríkistryggð yfir í skuldabréf sem gefin eru út af samlagshlutafélögum þar sem tryggingin er þá undirliggjandi eign, ekki bakábyrgð þriðja aðila. Það er augljóst að þau skuldabréf eru mun áhættusamari en skuldabréf ÍLS." 

Það er þá kannski ekki æskilegt að þessi bréf yrðu mun stærri hluti af eignasafni sjóðanna? 

„Enn sem komið er hafa þessi bréf ekki verulegt vægi í eignasafni sjóðanna,"

segir Eggert. Þessar fjárfestingar hafi ekki í för með sér kerfisáhættu, ekki enn.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Eggert Þ. Þórarinsson. Mynd: Stefán Jóhann Stefánsson.

Hvers vegna þessi bréf? 

„Við erum ekki með mikið þarna, þetta eru örfá prósent af sjóðnum. Fyrst og fremst hefur þetta vaxið undanfarin ár því þetta er nýtt. Þetta eru náttúrulega góðir fjárfestingakostir þegar á bakvið eru mjög dreifð fyrirtæki, góðar tryggingar og nokkuð vænleg ávöxtun,"

segir Þórhallur B. Jósepsson, ráðgjafi hjá Lífeyrissjóði Verzlunarmanna um samlagshlutafélögin. Hann bendir á að þessi félög séu mjög eðlisólík. Sjóðurinn meti þessar fjárfestingar öruggar, ekki síst vegna þess hversu mikil dreifing sé á áhættunni.

Sjóðirnir eiga helming í samlagshlutafélögunum

Lífeyrissjóðirnir eiga um helming í þessum skuggabankafélögum sem nú njóta vinsælda og hefur verið að fjölga ört, Samlagshlutafélögum. Þetta á alla vega við um þau félög sem Seðlabankinn hefur fengið upplýsingar frá. Bankinn sendi fyrirspurn til þeirra Samlagshlutafélaga sem eru eða voru í umsjón rekstrarfélaga verðbréfa, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða yfir tilgreint tímabil og þeirra sem tilkynnt hafa verið sérstaklega til Fjármálaeftirlitsins. Eignir þessara félaga námu um 7,8% af VLF í árslok 2016 og hefur vöxtur umsvifa þeirra verið ör á síðustu árum. Eignirnar samanstanda að mestu leyti af hlutabréfum atvinnufyrirtækja en þó er nokkur hluti eigna í fasteignum, útlánum og markaðsskuldabréfum. Ef við horfum til dæmis til Samlagshlutafélagsins Fast-,1 sem í fyrra átti 8,8 milljarða, þá eru átta af tíu stærstu hluthöfum félagsins lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður Verslunarmanna á tæp 20% í félaginu. 

Lífeyrissjóðirnir fjárfesta meira í fasteignum en áður

Í árslok 2016 námu eignir lífeyrissjóðanna tæplega einni og hálfri landsframleiðslu. Þær jukust um 5% að raunvirði frá árinu 2015. Fjármálaeftirlitið fylgist með fjárfestingum lífeyrissjóða en þeir senda eftirlitinu reglulega yfirlit yfir fjárfestingar sínar eftir flokkum. Í svari Fjármálaeftirlitsins við nýlegri fyrirspurn Spegilsins kemur fram að lífeyrissjóðir hafi síðastliðin ár aukið fjárfestingar í fasteignum, bæði sem hluthafar og lánveitendur. Flokkurinn fasteignaviðskipti vegur um 2,9% af heildareignum lífeyrissjóðanna og hefur hlutdeild hans vaxið um samtals 46% undanfarin tvö ár. Virði fjárfestinga lífeyrissjóða í eignarhaldsfélögum sem tengjast umsýslu fasteigna jókst um 60% árið 2015 og 29% árið 2016. Þau telja nú um 3,2% af fjárfestingum sjóðanna.

Eiga í Kringlunni og Hótel Borg 

Í svörum Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Lífeyrissjóðs starsfmanna ríkisins við fyrirspurn Spegilsins um hlutdeild fasteigna í eignasafni þeirra kom fram að þeir hefðu ekki fjárfest í íbúðarhúsnæði en fjárfest óbeint í atvinnuhúsnæði með því að kaupa hlutabréf og skuldabréf fasteignafélaga og samlagshlutafélaga. Þeir hafa til dæmis báðir fjárfest í Reitum, stærsta fasteignafélag landsins þegar kemur að útleigu atvinnuhúsnæðis. Félagið á meðal annars Kringluna, Holtagarða, Kauphallarhúsið, Hótel Borg og Hótel Natura. LV fjárfesti í hlutabréfum og skuldabréfum Reita, Regins og Eikar á árunum 2011 til 2015 og á til viðbótar hlut í samlagshlutafélögunum FÍ fasteignafélagi, SRE I, SRE II og Fast-1. LSR á bréf í Regin, Reitum, Eik, Fast-1, FÍ fasteignafélagi og Fossi fasteignafélagi. 

Þriðjungur eigna tengist fasteignum

16,3% af heildareignum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins tengjast fasteignum. Tengsl Lífeyirssjóðs Verslunarmanna við fasteignamarkaðinn eru ívið sterkari. Samtals má áætla að um 30% af eignum LV tengist fasteignum. Um 8% eignarsafnsins samanstendur af eignarhlutum í fasteignafélögum og skuldabréfum sem þau gefa út. Eignir í skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og sjóðsfélagalánum nema um 21% af eignum sjóðsins. Þórhallur segir að þetta sé ekki hátt hlutfall. Skuldabréfasafnið sé vel dreift og veðtryggt, skuldabréf Íbúðalánasjóðs með ríkisábyrgð. Hann segir þó viðbúið að hlutfall íslenskra fasteigna af heildareignum sjóðsins lækki á næstunni þegar sjóðurinn snúi sér í auknum mæli að fjárfestingum erlendis. 

Ekki gagnsæar fjárfestingar

Svar FME við fyrirspurn Spegilsins tekur einungis til fjárfestinga lífeyrissjóðanna í fyrirtækjum, ekki fjárfestinga í fjárfestingasjóðum sem aftur kunnu að fjárfesta í fasteignaverkefnum. FME telur þó að vöxturinn í fyrirtækjafjárfestingum ætti að gefa hugmynd um hvert sjóðirnir hafa beint fjárfestingum sínum. Það er í raun þrautin þyngri að reyna að átta sig á því hversu stór hluti eignasafns sjóðanna tengist fasteignum nákvæmlega. Sérstaklega þegar eignarhaldið er óbeint í gegnum samlagshlutafélög. 

„Þetta geta verið flókin net félaga og erfitt að átta sig á því hver undirliggjandi eign er í raun og veru og hver ber áhættuna. Ég myndi segja að þetta væri ekki gegnsætt. Það á við í þessu eins og fleiru að gagnsæi er yfirleitt jákvætt, til dæmis varðandi fjármálastöðugleika, þá er jákvætt að það sé sem mest en lífeyrissjóðirnir starfa undir mjög stýrum lagaramma bæði varðandi fjárfestingar sem þeir geta fjárfest í og hlutfall einstakra fjárfestinga og því er fylgt eftir."

Ákveðið heilbrigðismerki

En er eitthvað skuggalegt við aukin umsvif lífeyrissjóðanna innan skuggabankakerfisins? Þarf að auka eftirlit með því? Eggert segist ekki endilega viss um það. Hann segir að fyrst að lífeyrissjóðirnir eigi stóran hlut í þessum félögum sé ljóst að þau séu fjármögnuð með eiginfé en ekki lánsfé. 

„Því meira sem eigið fé er inni í þessum félögum því minni áhættu ber fjármálakerfið í heild af þeim."

Skuggabankakerfið dróst mikið saman eftir hrun. Eggert segir að vöxtur í því sé jákvæður upp að ákveðnu marki, ákveðið heilbrigðismerki á hagkerfinu. Skuggabankakerfið geti þó haft neikvæð áhrif á fjármálakerfið en í dag séu slík smitáhrif ekki líkleg vegna sterkrar stöðu bankanna.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV