Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lífeyrissjóðir og olía

11.01.2016 - 14:50
Mynd: RÚV / RÚV
Víða um heim eru lífeyrissjóðir að draga úr fjárfestingum í fyrirtækjum tengdum jarðefnaeldsneyti. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa keypt hluti í fyrirtækinu Fáfnir offshore sem þjónustar olíuiðnaðinn en samkvæmt fréttum á fyrirtækið nú í nokkrum vanda. Stefán Gíslason veltir fjárfestinugm lífeyrissjóða fyrir sér í pistli sínum í dag.

Í síðustu viku kom fram í fjölmiðlum að íslenskir lífeyrissjóðir ættu ef til vill á hættu að tapa miklum fjármunum vegna fjárfestinga sinna í fyrirtækinu Fáfni Offshore. Fáfnir Offshore er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla á norðlægum slóðum, en nú virðist eftirspurn eftir þeirri þjónustu nánast horfin, að minnsta kosti í bili, vegna verðhruns á olíumörkuðum. Í Kjarnanum var sérstaklega fjallað um kaup framtakssjóðanna Akur fjárfestingar og Horn II, á hlutum í Fáfni, en báðir þessir sjóðir munu að mestu leyti vera í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Kjarninn áætlar að þessir tveir sjóðir hafa fjárfest fyrir vel yfir tvo milljarða króna í Fáfni Offshore í desember 2014. Svo virðist sem Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður eigi þarna stærstan hlut að máli, en samkvæmt því sem fram kemur í Kjarnanum eiga þessi sjóðir hvor um sig 15-20% hlut í báðum framtakssjóðunum sem um ræðir. Þar koma þó fleiri við sögu, þ.á.m. 11 aðrir lífeyrissjóðir, bankar og tryggingafélög.

 

Fréttirnar um vandann sem steðjar að Fáfni Offshore og upplýsingarnar um þátttöku lífeyrissjóða í fjármögnun fyrirtækisins vekja upp spurningar um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðum er ætlað að varðveita og ávaxta fjármuni sem tryggja lífeyrisþegum framtíðarinnar áhyggjulaust ævikvöld, eins og það var einhvern tímann orðað, og í þessu hlutverki felst væntanlega að sjóðirnir gætu þurft að haga fjárfestingum sínum með öðrum hætti en þeir einkaaðilar úti í bæ sem á annað borð hafa fjárhagslega getu til að leggja milljarða í hin ýmsu fyrirtæki og verkefni. Maður hlýtur með öðrum orðum að álykta, að ef eitthvað er þurfi lífeyrissjóðirnar að sýna meiri aðgát en einkafjárfestar og jafnvel að hugsa fjárfestingar sínar lengra fram í tímann.

 

Fjárfestingar í olíuiðnaði hafa verið nokkuð til umræðu síðustu mánuði, bæði hér í Samfélaginu og á öðrum vettvangi, innanlands sem utan. Þar hefur hugtakið óbrennanlegt kolefni komið við sögu en þar er átt við kolefni sem til staðar er í þekktum kolanámum og í þekktum olíu- og gaslindum og þarf að liggja þar kyrrt um aldur og ævi ef takast á að halda meðalhækkun hitastigs á jörðinni undir 2°C miðað við það sem það var fyrir upphaf iðnbyltingarinnar. Áætlað hefur verið að allt að 80% þess kolefnis sem menn vita um nú þegar sé óbrennanlegt í þessum skilningi. Fjármunir sem varið er til undirbúnings að því að framleiða og selja eldsneyti úr þessu kolefni eiga því á hættu að daga uppi, eða verða að því sem kallast „stranded assets“ á ensku. Sama gildir enn frekar um fjárfestingar sem miða að því að finna enn meira kolefni í jörðu, enda hlýtur allt það kolefni að vera óbrennanlegt ef ætlunin er að leyfa mannkyninu að tóra áfram á jörðinni við svipuð kjör og það hefur gert síðustu 100 árin. Úr þessum jarðvegi er sprottin hreyfing sem kennd er við fjárlosun eða „divestment“ og hefur það að markmiði að fá fjárfesta til að losa um þá fjármuni sem lagðir hafa verið í kola-, olíu- og gasgeirann og leggja þá frekar í verkefni sem gagnast gætu þeim sjálfum og mannkyninu öllu til lengri framtíðar.

 

Með allt þetta í huga er fróðlegt að velta því fyrir sér hvort íslenskir lífeyrissjóðir hafi mótað sér einhverja stefnu um fjárfestingar, eða öllu heldur ekki-fjárfestingar, í olíuiðnaði og skyldum greinum. Lausleg skoðun á heimasíðum tuttuguogþriggja starfandi lífeyrissjóða bendir í öllum aðalatriðum til að svo sé ekki. Í fljótu bragði virðast aðeins 6 af þessum 23 sjóðum minnast á umhverfismál á heimasíðum sínum. Þar af eiga þrír sjóðir aðild að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, eða PRI eða „Principles for Responsible Investment“ eins og þessar reglur nefnast á ensku. Þessar reglur eru leiðbeinandi fyrir stofnanafjárfesta um allan heim og fela í sér að þátttakendur skuldbinda sig til að taka tillit til umhverfislegra og félagslegra þátta við fjárfestingar sínar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórnarhætti fyrirtækja sem fjárfest er í. Íslensku sjóðirnir sem eiga aðild að PRI eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem einmitt á stóran hlut að Fáfnismálinu. Þrír aðrir lífeyrissjóðir minnast sérstaklega á umhverfismál á heimasíðum sínum samkvæmt þessari lauslegu könnun. Þar er m.a. á einum stað gerð krafa um að fyrirtæki sem tiltekinn sjóður fjárfestir í sýni ábyrgð gagnvart samfélagslegum gildum og gæti að jafnrétti kynjanna og umhverfinu og á öðrum stað er tilskilið að þau félög sem fjárfest er í gæti að samfélagslegri ábyrgð, umhverfismálum og viðskiptasiðferði. Enginn íslenskur lífeyrissjóður virðist hins vegar hafa sérstakan vara á þegar fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti eru annars vegar, hvað sem umræðunni um strandaðar eignir og óbrennanlegt kolefni líður.

 

Í framhaldi af þessum vangaveltum um fjárfestingarstefnu íslenskra lífeyrissjóða er eðlilegt að spurt sé hvernig þessum málum sé háttað í nágrannalöndunum. Í þeim efnum er ekkert algilt, en þó er greinilegt að lífeyrissjóðir á hinum Norðurlöndunum eru byrjaðir að losa um eignir sínar í jarðefnaeldsneytisgeiranum. Af einstökum dæmum í þessa veru má nefna ársgamla stefnu Sambands sænskra sveitarfélaga (Sveriges Kommuner och Landsting, SKL) fyrir þá stofnun sambandsins sem heldur utan um ávöxtun og greiðslur lífeyrisskuldbindinga. Þessi stefna felur í sér þá reglu að óheimilt sé að fjárfesta í sjóðum þar sem meira en 5% af eignasafninu samanstendur af félögum þar sem meira en 50% af tekjunum tengjast tóbaki, áfengi, klámi, fjárhættuspilum, hergögnum eða jarðefnaeldsneyti. Tvisvar á ári gengur óháður aðili úr skugga um að enginn sjóður í eignasafninu hafi farið yfir fyrrnefnd 5% mörk og ef slík mál koma upp er athygli viðkomandi fjárfestingarsjóðs vakin á þessu og bréf í sjóðnum seld í framhaldinu ef fullnægjandi úrbætur eru ekki gerðar innan hæfilegs umþóttunartíma. Einhverjir einstakir lífeyrissjóðir í Svíþjóð hafa farið inn á svipaðar brautir, félagar í nokkrum dönskum lífeyrissjóðum hafa þrýst á stjórnir sjóðanna að draga allt sitt fé út jarðefnaeldsneytisgeiranum og af svipuðum meiði er ákvörðun norska ríkisins á síðasta vori um að hætta fjárfestingum í fyrirtækjum og félögum sem byggja afkomu sína á kolavinnslu. Sú ákvörðun er talin vera stærsta einstaka skrefið sem tekið hefur verið á heimsvísu til að draga úr fjárfestingum af þessu tagi, enda snýst þetta eina mál um fjárfestingar upp á 1.000 milljarða íslenskra króna.

 

Vandræðin sem virðast blasa við Fáfni Offshore og lífeyrissjóðunum sem lagt hafa fé væntanlegra lífeyrisþega í fyrirtækið hafa ekki endilega beina tengingu við loftslagsmál og óbrennanlegt kolefni. Þau gefa hins vegar tilefni til að ræða hvort sjóðir sem sýsla með almannafé þurfi ekki að ráðast í róttæka endurskoðun á fjárfestingarstefnum sínum, annars vegar til þess að þetta almannafé endi ekki sem strandaðar eignir og hins vegar með tilliti til þeirra tækifæra og þeirra skyldna sem lífeyrissjóðirnir hafa til að búa í haginn fyrir framtíðina. 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður