Lífeyri útlendinga dagar uppi á Íslandi

26.08.2019 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Hluti af iðgjöldum útlendinga situr fastur í lífeyrissjóðum landsins því sjóðirnir geta ekki haft uppi á fólkinu erlendis. Ekki má taka peningana í þágu annarra sjóðfélaga því ekki er vitað hvort fólkið er lífs eða liðið. Fólk utan EES og Bandaríkjanna má fá öll iðgjöld endurgreidd þegar það fer en veit ekki af því og skilur peningana eftir.

Um 2000 af sjóðfélögum lífeyrissjóðsins Stapa eru orðnir 60 ára en hafa flutt úr landi. Helmingurinn eru Pólverjar sem unnu á Íslandi um lengri eða skemmri tíma og söfnuðu réttindum í lífeyrissjóð. Þessi 2000 manna hópur hefur ekki sótt um að taka lífeyrinn út þó hann eigi rétt á því. „Við viljum endilega koma peningunum til þeirra sem eiga þá en það er þannig að ef fólk sækir ekki rétt sinn sjálft þá höfum við enga möguleika á því að hafa samband, hafi það ekki skilið eftir neinar upplýsingar um netfang eða heimilisfang erlendis. Það er hætta á því að einhver hópur erlendra ríkisborgara muni ekki sækja rétt sinn til okkar,“ segir Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs hjá Stapa.

Algengt að útlendingar eigi inni heila milljón

Hún segir að inneignir séu misháar en margir eigi rétt á um einnar milljónar króna eingreiðslu fyrir skatt. Stór hluti hópsins séu erlendir ríkisborgarar sem unnu við smíði Kárahnjúkavirkjunar. Sjóðurinn megi ekki taka peningana í sameign fyrr en sjóðfélagi deyr en sjóðurinn hafi engin tök á því að kanna hvort fólkið er enn á lífi. „Það er engin samevrópsk þjóðskrá til og þess vegna vitum við ekki hvenær fólk fellur frá né hvar þar er til húsa þannig að við komum ekki upplýsingum til þeirra og getum ekki athugað með það,“ segir Jóna Finndís.

Mega ekki afskrifa peningana

Þeir sem hafa ríkisfang utan evrópska efnahagssvæðisins og Bandaríkjanna þurfa ekki að bíða til 60 ára aldurs eftir að taka út lífeyri heldur geta fengið öll iðgjöldin endurgreidd þegar þeir flytja frá Íslandi. Til þess þurfa þeir að skila staðfestingu á brottflutningi, yfirlýsingu frá vinnuveitanda og afriti af flugfarseðlum úr landi. Nokkur hópur frá Ástralíu og Nýja Sjálandi sem hefur komið til að vinna við slátrun á inni peninga hjá Stapa, líklega án þess að vita af því. „Við myndum klárlega vilja sjá miklu meiri samvinnu á milli lífeyrissjóðanna, Tryggingastofnunar og Þjóðskrár til að halda utan um þessa aðila og þeirra rétt. Það er einhver hluti af þessu, við vitum ekki hve stór, er sem er að klikka á því að sækja rétt sinn. Hingað til höfum við ekki afskrifað neitt og það er ekkert í samþykktum sem segir að við mættum gera það,“ segir Jóna Finndís.

Sumir eiga rétt á að fá allt borgað í einni greiðslu

Hluti af þessum 2000 manna hópi gæti átt eftir að sækja um lífeyri, hluti hópsins eru Íslendingar sem hafa flutt utan og sumir kjósa að bíða með að hefja töku lífeyris. Ætla má að fleiri lífeyrissjóðir liggi með peninga sem þessa, ekki síst sjóðir sem erlendir verkmenn hafa greitt í.

Jóna Finndís segir að segir að ef réttindin séu minni en 10 þúsund krónur á mánuði sé hægt að semja um að fá þau í eingreiðslu en þau mörk lækki ef viðkomandi á réttindi hjá fleiri en einum sjóði. Atvinnurekendur mættu minna erlent starfsfólk á rétt sinn þegar það hættir störfum. „Við myndum gjarnan vilja að  sjóðfélagar skildu eftir hjá lífeyrissjóðnum heimilisfang erlendis eða netfang. Þau endast oft og tíðum betur en heimilisföng. Þannig að það væri mjög gott ef slíkt væri skilið eftir hjá okkur.“

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi