Lifði á kornflexi og frosnum frönskum

Mynd: RÚV / RÚV

Lifði á kornflexi og frosnum frönskum

12.06.2018 - 08:55
Birgittu Haukdal ætti hvert mannsbarn í landinu líklega að kannast við. Hún var mánudagsgestur í Núllinu og fór yfir ferilinn, allt frá upphafinu í ABBA-sýningu á Broadway til endurkomu aldarinnar á Þjóðhátíð í fyrra og risatónleikanna í Hörpu fyrir tveimur vikum síðan.

Birgitta segist sjálf enn vera á bleiku skýi eftir tónleikana sem hljómsveitin hennar, Írafár, hélt í Eldborgarsal Hörpu þann 2. júní. Tónleikarnir slógu rækilega í gegn en hljómsveitin hafði ekki komið saman í tólf ár.

Birgitta er fædd og uppalin á Húsavík en þar bjó hún þangað til að hún flutti til Reykjavíkur 18 ára gömul. Árið 1998 tók hún þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Framhaldsskólans á Laugum en sló að eigin sögn ekkert sérstaklega í gegn.

Hún virðist þó hafa snert við einhverjum því að stuttu seinna hafði einn dómari keppninnar samband við hana um það að syngja í ABBA sýningu á Broadway. Úr því varð og Birgitta flaug suður allar helgar, söng í sýningunni og flaug svo aftur heim.

Meðal annarra söngvara voru Kristján Gíslason, Hulda Gestsdóttir og Jónsi, en hann og Birgitta áttu einmitt eftir að syngja saman í uppsetningu á söngleiknum Grease nokkrum árum síðar.

Birgitta hélt áfram að fljúga fram og til baka milli Reykjavíkur og Húsavíkur í einhvern tíma en þegar farið var að sýna sýninguna oftar í viku, tók hún þá ákvörðun að flytja í borgina.

18 ára þótti henni þetta frábært. Hún fékk borgað fyrir að syngja og gera það sem henni fannst skemmtilegt, þó svo að hún hafi ekki endilega lifað hátt á meðan. „Ég bókstaflega lifði bara á kornflexi og frosnum frönskum í tvö ár.“ Hún er samt sem áður þakklát fyrir þennan tíma og segist minna sig reglulega á að njóta hvers skrefs í lífinu.

„Maður má ekki setja markið svo hátt að maður gleymi að njóta vegferðarinnar.“

Birgitta hafði ekki klárað framhaldsskóla þegar hún flutti til Reykjavíkur og fór á tímabili í Fjölbrautaskólann í Garðabæ en stoppaði þar stutt. Hún segir að líklega hafi skortur á sjálfsöryggi orðið til þess að hún hætti. „Ég var feimin og þekkti engan. Var kannski bara ekki með nægan metnað og kærulaus.“

Eftir að hafa sungið í um ár á Broadway varð Birgitta svo hluti af hljómsveitinni Írafári. Vignir Snær Vigfússon, Sigurður Rúnar Samúelsson, Andri Guðmundsson og Jóhann Bacmann Ólafsson skipuðu sveitina sem var í leit að söngvara og var bent á Birgittu.

Mynd með færslu
 Mynd: Írafár

Eftir stanslausar æfingar og nokkur gigg gaf hljómsveitin út lag og þá fór boltinn að rúlla. Bylgjan fékk þau til að túra með sér um landið og syngja í hinni svokölluðu Bylgjulest. Á kvöldin fengu þau svo að spila með Sálinni hans Jóns míns á sveitaböllum og eftir það var ekki aftur snúið.

Seinna þetta ár gaf hljómsveitin út lagið Fingur sem sló samstundis í gegn. Það kveikti í fólki og útgáfufyrirtæki fóru að hafa samband til þess að gefa plötur hljómsveitarinnar út. Sannkallað Írafárs-æði greip um sig í landinu og fyrsta platan, Allt sem ég sé, sló öll met á sínum tíma þegar hún seldist í um 18 þúsund eintökum á nokkrum vikum en á henni mátti finna slagara eins og Stórir hringir, Fingur og Ég sjálf. Plöturnar Nýtt upphaf og Írafár fylgdu svo í kjölfarið.

Á þessu tímabili var eins og gefur að skilja mikið álag á hljómsveitinni. „Maður gat ekki hugsað,“ segir Birgitta, „það er eiginlega ekki fyrr en í dag sem að ég fer að fatta hvernig mér leið,“ bætir hún við. Hún segir það þó ekki hafa verið neitt mál að vera eina stelpan í „strákahljómsveit“ og að hún hafi alltaf elskað að vera með strákum. „Ég er svolítið kamelljón, elska að vera alveg algjör gaur, en svo elska ég líka að gera mig rosalega fína og vera mesta stelpa í heimi.“

Eftir mikla keyrslu ákvað hljómsveitin í sameiningu að taka pásu. Birgitta gaf sjálf út barnaplötu ári síðar en hún segist hafa viljað gera eitthvað fyrir yngstu aðdáendur hljómsveitarinnar.

Með umdeildari atvikum á ferli Birgittu er líklegast Birgittu-dúkkan víðfræga sem átti að vera eftirmynd söngkonunnar en margir vildu meina að hún væri alls ekki lík henni. Sjálfri fannst henni hugmyndin hlægileg til að byrja með en ákvað svo að slá til. “Ég hugsaði bara af hverju ekki? Af hverju í ósköpunum ætti ég að segja nei við þessu? Þó svo að það væri ekki nema fyrir börnin mín og barnabörnin.”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Síðan þá hefur Birgitta búið á Spáni, gefið út sólóplötur og skrifað barnabækur. Írafár hefur hist á hverju ári og alltaf er spurningin hvenær þau eigi að kýla á þetta og koma aftur saman. „Kannski á næsta ári var yfirleitt alltaf svarið,“ segir Birgitta.

Það er svo fyrir einskæra tilviljun að hún ákveður að koma fram á Þjóðhátíð í Vestmanneyjum árið 2017. „Þetta var í rauninni alveg óvart. Ég hætti á sínum tíma að syngja um Verslunarmannahelgina, fór alltaf bara að veiða og sagði alltaf nei við öllum giggum.“ Þetta árið klikkaði hins vegar veiðiferðin og Birgitta ákvað því að kýla á Þjóðhátíð.

Hún hafði hins vegar ekki látið sig dreyma um viðbrögðin sem að hún fékk og eftir að hafa líka komið fram á Fiskideginum á Dalvík ákvað hún að hafa samband við strákana í hljómsveitinni um að koma saman aftur. Úr því urðu svo stórtónleikar Írafárs í Hörpu nú fyrr í mánuðinum og í raun algjör tilviljun að það hitti á 20 ára stofnunarafmæli hljómsveitarinnar.

„Stundum er bara eitthvað skrifað í skýin. Allt í einu fer lífið bara með mann á einhverja staði.“

Hljómsveitin gaf út nýtt lag nú fyrr á árinu og safnplata með lögum hennar kom út nú nýlega. Birgitta segist þó ekki viss um að það sé von á fleiru frá þeim, þó svo að maður eigi aldrei að segja aldrei.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Birgittu í fullri lengd í spilaranum hér að ofan.